Heima

HEIMA: móttaka barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi frá sjónarhóli barnsins

 
Móttaka Útlendingastofnunar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Móttaka Útlendingastofnunar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

 

 
unicef.fjoldibarnafinAsset 4.png

Á árunum 2016 - 2018 tók Útlendingastofnun á móti umsóknum 633 barna, þar af komu 66 þeirra ein til landsins.

Fylgdarlaus börn dvelja á sér gangi í húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði.

Fylgdarlaus börn dvelja á sér gangi í húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði.

Sjónarmið barna

Í verkefninu HEIMA er áhersla lögð á sjónarmið barna og sögðu börn frá upplifun sinni af því að koma til Íslands og sækja um alþjóðlega vernd. Þau voru 31 talsins á aldrinum 7 til 18 ára, ásamt ungu fólki á aldrinum 18 – 21 árs sem voru börn þegar þau komu fyrst til landsins. Börnin voru búsett í Reykjavík og Hafnarfirði. Við bættust niðurstöður níu viðtala við fylgdarlaus börn sem framkvæmd voru af öðrum aðilum. Þá var jafnframt var rætt við 12 foreldra um þeirra upplifun af því að fylgja börnum í gegnum umsóknarferlið.

Sjónarmiðum barnanna er skipt niður í fimm flokka og sjötti flokkurinn er tileinkaður foreldrum sérstaklega. 

▼Ég þarf að skilja / verða sjálfstæðari

Atriði sem börn benda á að valdi vanlíðan:

  • Þau finna fyrir óvissu og kvíða þegar þau skilja ekki og eru ekki upplýst um framvindu umsóknarinnar um vernd.
  • Það er skortur á upplýsingum um ferlið, hvað gerist á hverjum stað, hlutverk starfsfólks og þeirra eigið hlutverk.
  • Aðstaða og upplýsingar fyrir börn er af skornum skammti.
  • Það er erfitt að bíða lengi.
  • Þau kvíða ákvörðuninni um synjun eða vernd.
  • Þau upplifa reiði, hræðslu og stundum uppgjöf þegar þau fá synjun á umsókn sinni.

Atriði sem börn og aðrir viðmælendur benda á að myndu bæta líðan barna:

  • Jöfn og tíð upplýsingargjöf skiptir máli, líka þegar ekkert er að frétta.
  • Þjónustuaðilar skipta miklu máli í upplýsingagjöf.
  • Staðir með aðstöðu eða efni fyrir börn sitja í fersku minni og gera upplifunina jákvæðari.
  • Skólinn sinnir mikilvægu hlutverki í upplýsingagjöf bæði fyrir börn og foreldra.
  • Það er mikilvægt að börn séu upplýst en ekki gerð ábyrg fyrir miðlun upplýsinga til foreldra sinna.

▼Mér þarf að líða eins og ég eigi heimili

Atriði sem börn benda á að valdi vanlíðan:

  • Mörg barnanna töluðu um að hafa fundið fyrir svengd, þreytu og kulda fyrstu sólarhringana á Íslandi.
  • Óhrein herbergi og takmörkuð aðföng valda þeim vanlíðan.
  • Þau upplifa einmanaleika og hræðslu í Bæjarhrauni.
  • Skortur á leikplássi og leikföngum gerir biðina og óvissuna verri.
  • Þau upplifa sig föst ef þau búa afskekkt eða hafa takmarkaðan aðgang að samgöngum.

Atriði sem börn og aðrir viðmælendur benda á að myndu bæta líðan barna:

  • Hreint húsnæði þar sem er rúm fyrir alla skiptir börnin máli.
  • Aðgangur að mat strax við komuna til landsins er mikilvægur.
  • Leikföng og staðir til að leika sér innan- og utandyra minnkar álagið á börnin.
  • Börn sem eiga systkini á svipuðum aldri eru betur stödd því þau eiga vísan leikfélaga.

▼Ég þarf meiri virkni / finna fyrir minni einmanaleika

Atriði sem börn benda á að valdi vanlíðan:

  • Það er erfitt að skilja ekki neitt í skólanum og fá litla aðstoð frá fullorðnum.
  • Leiði yfir að fá ekki að stunda íþróttir eða aðrar tómstundir.
  • Þrá eftir að læra tungumálið.
  • Börn eldri en 16 ára hafa færri tækifæri til að læra íslensku og mennta sig.
  • Þeim þykir erfitt að eignast íslenska vini.

Atriði sem börn og aðrir viðmælendur benda á að myndu bæta líðan barna:

  • Að byrja í skóla sem fyrst er mjög mikilvægt börnunum og að þeim þyki skemmtilegt í skólanum.
  • Tómstundir og námsgreinar sem krefjast ekki íslensku eru afar mikilvægar börnunum og sárt ef þau eru svipt því.
  • Það er mikilvægt fyrir börnin að hafa eitthvað við að vera eftir skóla og um helgar.
  • Vinir af erlendum uppruna eru mikilvægir en aðstoð við að eignast íslenska vini skiptir þau líka miklu máli.
  • Fyrir eldri eru námskeið eins og Dale Carnegie og kort í World Class dæmi um mikilvæg námstækifæri og dægrastyttingu.

▼Ég þarf að hitta lækni

Atriði sem börn benda á að valdi vanlíðan:

  • Þau upplifa ótta, kvíða og jafnvel sársauka ef aðgengi að heilbrigðisþjónustu er ekki til staðar.
  • Það veldur óöryggi ef fyrsta tækifæri fyrir þjónustu er sóttvarnarskoðun því stundum er þörf á heilsugæslu fyrr.
  • Óþarflega löng bið eftir heilbrigðisþjónustu getur valdið áhyggjum og jafnvel skaða, t.d þegar þarf að bíða eftir að þjónustuaðili vísi áfram til heilbrigðisþjónustu. Vandi barns eða foreldris er stundum orðinn mikill þegar loksins er gripið inn í.
  • Óvissa um rétt barna til heilbrigðisþjónustu.
  • Óeðlilega mikil ábyrgð lögð á börn sem eiga veika foreldra.

Atriði sem börn og aðrir viðmælendur benda á að myndu bæta líðan barna:

  • Þar sem aðgengi að félagsráðgjöfum er gott, til dæmis með Facebook síðu og bakvaktarsíma, gengur betur að veita heilbrigðisþjónustu.
  • Ef veittar eru upplýsingar um vakt heilsugæslunnar eftir kl. 16 léttir það á áhyggjum foreldra gagnvart börnum sínum.
  • Beint aðgengi að heilsugæslustöðvum og upplýsingar um hvernig skuli sækja þjónustu þeirra myndi tryggja betur öryggi barna og auðvelda vinnu þjónustuaðila.
  • Aukin þjónusta inn á heimili veikra foreldra skiptir börnin máli.
  • Sálfræðiþjónusta hjálpar börnum mikið, sérstaklega ef þau eiga engan annan til að ræða við.

▼Ég þarf umönnun þegar ég er ein eða einn á ferð

Atriði sem börn benda á að valdi vanlíðan:

  • Þau finna fyrir ótta, óöryggi og vonleysi þegar það skortir alla umönnun.
  • Þrá eftir mikilvægum fullorðnum sem aðstoða með daglegar athafnir og aðstoða við umsóknina í samvinnu við barnið.
  • Skortur á upplýsingum um umsóknarferlið og stöðuna hverju sinni.
  • Söknuður eftir góðum mat og áhyggjur af næringu.
  • Skortur á menntun og tungumálakennslu veldur áhyggjum af því að missa af tækifærum til náms og takmarkaðs sjálfstæðis.
  • Skortur á einhverju við að vera.
  • Áhyggjur af fjölskyldu og skortur á aðstoð við fjölskyldusameiningu.
  • Miklar áhyggjur af framtíðinni.
  • Neikvæðar og erfiðar breytingar við 18 ára aldur.

Atriði sem börn og aðrir viðmælendur bentu á að myndu bæta líðan barna:

  • Gott samstarf félagsráðgjafa og barns eykur sjálfstraust og fjölgar tækifærum til náms, tómstunda, fósturs og annarra úrræða.
  • Það eykur tilfinningu um sjálfstæði og sjálfsvirðingu þegar barnið fær tilfinningu um að vera virkur hluti af vinnu talsmannsins.
  • Fósturfjölskyldur auka mjög á tækifæri barnanna til að skilja umsóknarferlið og íslenskt samfélag. Þær létta álagið af biðinni og aðstoða við að undirbúa framtíðina.
  • Heitur og góður matur er mikilvægur börnunum og minnkar einmanaleika.

▼Ég þarf að geta hlíft barninu mínu

Atriði sem foreldrar benda á að valdi vanlíðan:

  • Miklar áhyggjur af líðan barnanna og eiga í erfiðleikum með að vernda börnin.
  • Vanlíðan vegna aðgerðarleysis (engin vinna, tómstundir eða vinir).
  • Skortur á samráði.
  • Áhyggjur af framtíð barnanna.
  • Ótti, vonleysi og hjálparleysi gagnvart umsóknarferlinu.
  • Skortur á upplýsingum um réttindi og skyldur.

Atriði sem foreldrar og aðrir viðmælendur benda á að myndu bæta líðan barna:

  • Gott aðgengi að þjónustu og upplýsingum hjálpar foreldrum að sinna sínu hlutverki.
  • Virkni foreldra hjálpar til að takast á við biðina og óvissuna.
  • Glaðir foreldrar eru góðir foreldrar.

Þeirra eigin orð

Beinar tilvitnanir úr samtölum við börn.

 
Í skólanum hjálpaði enginn fullorðinn, bara vinkona sem talaði sama tungumál.
Ég var mjög hræddur og titraði af hræðslu [...] Ég var líka meðvitaður um þetta væri síðasti sénsinn -the last stop for my life-
Biðin var erfið. Við vorum hræddar um hvað myndi gerast og skildum ekkert.
Ég var einmana fyrst og vildi fara aftur til baka.
Ég sé ekki mun á [heimaríkinu] og Íslandi, nema að ég bý við öryggi hér. Það er enginn sem hjálpar mér. Ég er einn.
Aðstaða fyrir börn fyrir framan viðtalsrými Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni.

Aðstaða fyrir börn fyrir framan viðtalsrými Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni.

 

Vinnuferli og framkvæmd

vinnuferli23-01.png

▼Vinnuferli

Vinnuferli verkefnisins skiptist í fimm megin verkþætti:

  1. Fyrsti þáttur verkefnisins er kortlagning á móttökuferlinu. Áhersla er á að tala við börn sem sækja um alþjóðlega vernd,en einnig foreldra og helstu hagaðila. Þannig er dregin upp raunsæ mynd af upplifun og reynslu þeirra sem nota og starfa við móttökuferlið.

  2. Eftir að viðhorfum hefur verið safnað er reynt að koma auga á þann vanda sem flest börn eiga sammerkt að hafa upplifað. Þar eru jafnframt komnar vísbendingar um þau atriði sem sérstaklega þarf að líta til við mat á því sem barni er fyrir bestu.

  3. Þegar vandinn hefur verið skilgreindur er hann borinn undir aðra hluthafa sem tengjast móttöku barna og þeir beðnir um að finna lausnir. Með þessu er reynt að horfa framhjá kerfislægum eiginleikum móttökunnar og einblína á þau málefni sem börnin sjálf telja brýnast að bregðast við. Þannig er komið í veg fyrir að fulltrúar stofnana skilgreini vandann út frá eigin sjónarhóli, sem gæti skilað sér í viðhorfum sem speglast í vandamálum stofnunarinnar sjálfrar en ekki vandamálum sem börnin sjálf leggja áherslu á. Lausnirnar eru að lokum bornar undir börnin og þau fengin til að leggja mat á þær.

  4. Næsta skref væri að prófa lausnirnar á litlum skala, sjá hvort þær reynist vel eða illa og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að bæta þær. Þannig eru prófanir hluti af því að sannreyna bæði vandann og lausnirnar og taka upplýstar ákvarðanir um breytingar á kerfinu sem bæta stöðu sem flestra innan þess.

  5. Ef prófanir sýna jákvæðar niðurstöðu er hægt að leggja til áætlun um varanlegar breytingar á mótttökuferlinu.

▼Framkvæmd

HLUSTAÐ Á BÖRNIN

Í upphafi árs 2019 hittu fulltrúar UNICEF og Grallaragerðarinnar 31 barn og ungmenni og ræddu við þau um reynslu þeirra af því að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Notast var við aðferðina kortlagningu ferðalags (e. journey mapping), þar sem ferðalag þeirra frá komu til landsins til þess dags var sett fram á myndrænan hátt með hjálp tilfinningatákna. Börnin voru á aldrinum 7 – 18 ára en að auki voru nokkur ungmenni eldri en 18 ára sem höfðu komið til landsins sem börn. Börnin voru öll búsett í Reykjavík og Hafnarfirði en ekki gafst tími til að ræða við börn sem búsett eru í Reykjanesbæ, en þessi þrjú sveitarfélög þjónusta umsækjendur á Íslandi. Við bættust niðurstöður úr fókushópi fylgdarlausra barna sem Rauði Krossinn hélt á sama tímabili auk viðtala við sex fylgdarlaus börn fyrir MA-rannsókn Evu Bjargar Bragadóttur við Háskóla Íslands. Það reyndist vel að bera saman niðurstöður frá öðrum aðilum og gaf tækifæri til þess að sannreyna aðferðina. Niðurstöður viðtalana voru nokkuð keimlíkar og því hægt að draga þá ályktun að aðferðafræði verkefnisins sé réttmæt. Auk þess voru tekin viðtöl við hagaðila sem lýstu ferlinu og sinni aðkomu að móttökuferlinu. Það gaf einnig mikilvægar upplýsingar sem hægt var að bera saman við upplifun barnanna.

LEIÐIN KORTLÖGÐ

Samhliða þeirri vinnu var unnið að kortlagningu á leið barna í gegnum móttökuferlið, allt frá flugstöðinni eða öðrum komustað, til dvalarleyfis eða brottvísunar. Mest áhersla var lögð á fyrstu stig ferlisins þar sem bent hefur verið á mikilvægi þess hluta og hvernig upphafið getur haft áhrif á allt sem á eftir kemur. Með kortlagningu má öðlast betri skilning á öllum þeim aðilum sem koma að móttöku, svo tryggt sé að þeir séu allir þátttakendur í hugmyndavinnu verkefnisins og meðvitaðir um þá vinnu sem fer fram. Þessar upplýsingar voru settar upp á myndrænan hátt og geta nýst við miðlun upplýsinga milli stofnana og fyrir börn sem stödd eru í móttökuferli.

VINNUSTOFUR MEÐ SÉRFRÆÐINGUM

Þegar niðurstöður samtalanna við börnin lágu fyrir voru stofnanir, félagasamtök og aðrir sem tengjast móttöku barna beðin um að leysa þær áskoranir sem börnin höfðu lýst. Unnið var að lausnunum í tveimur vinnustofum sem haldnar voru 26. mars og 10. apríl 2019 í húsnæði Listaháskóla Íslands. Alls tóku þátt 36 sérfræðingar frá 16 stofnunum eða samtökum. Helstu áherslur vinnustofanna voru að kynna sjónarmið barna sem koma til Íslands, skapa samkennd, opna tækifæri til samtals og að síðustu þróa lausnir til að bregðast við aðstæðunum eins og þeim er lýst.

ENDURGJÖF FRÁ BÖRNUM

Eftir vinnustofurnar voru hugmyndirnar teknar saman og þær kynntar fyrir börnunum. Hist var í anddyri Bíó Paradísar þar sem módel og lýsingar á lausnunum voru til sýnis. Í hópum var lausnunum lýst á móðurmáli barnanna og þau fengin til að benda á það sem betur mætti fara auk þess að velja þá lausn sem þeim þótti best.

▼Aðferðafræði

HEIMA fylgir hugmyndafræði um mannmiðaða hönnun, þar sem áhersla er lögð á að notendur þjónustu taki þátt í að bæta hana. Þannig er tryggt að umbætur nýtist sem best. Í ljósi þess að verkefnið snýr að börnum sem staldra gjarnan stutt við á landinu er mikilvægt að finna leiðir til þess að bregðast hratt við vanda innan móttökunnar. Fáar íslenskar rannsóknir eru til á þessu sviði og eðli rannsókna þannig að niðurstöður liggja fyrir löngu eftir að barn þarf á aðstoð að halda. Mannmiðuð hönnun nýtist vel til þess að bregðast við stöðunni hratt og með samstarf að leiðarljósi. Til þess að fá sem heildstæðasta mynd er jafnframt mikilvægt að tala við þá sem standa barni næst (umönnunaraðila) og þá einstaklinga sem hafa farið í gegnum þetta ferli og eru nú fullorðnir. Áhersla er lögð á upplifun af móttökunni og að bregðast við þeim vanda sem flest börn benda á.

Verkefnið Heima var unnið útfrá sambærilegu sænsku verkefni að nafni ’Heilnæm mótttaka’ sem unnið var af Fornyelse Labbet, SVID (Hönnunarmiðstöð Svíþjóðar) og UNHCR árið 2018.

lína.jpg
vinnabordi.jpg

 

annafin.jpg
postit.jpg

Áskoranir innan stjórnsýslunnar

Í samtölum vegna verkefnisins HEIMA við yfir 40 einstaklinga frá fimmtán mismunandi stofnunum komu fram ýmis atriði sem vert er að benda á til frekari skoðunar í samhengi við mat á því sem barni er fyrir bestu. 

▼Lesa meira um áskoranir innan stjórnsýslu

Þar kom fram að starfsfólk sem kemur að málefnum barna sem sækja um alþjóðlega vernd finnur fyrir mikilli óvissu um hvenær skuli deila upplýsingum um börn með öðrum stofnunum og hvenær þörf sé á að vernda persónuupplýsingar. Dæmi um slíkt úr samtölum við hagaðila er fyrirspurn frá barnaverndaryfirvöldum til Útlendingastofnunar þar sem falast var eftir upplýsingum um hversu lengi barn yrði á landinu. Við fyrstu sýn gæti það virst eðlileg upplýsingagjöf, en ef litið er til skyldu barnaverndaryfirvalda að veita barni þjónustu óháð lagalegri stöðu þess og í samræmi við það sem barninu er fyrir bestu er ljóst að upplýsingar af þessu tagi gætu verið til þess fallnar að valda mismunun. Gjarnan er talað um svokallaða eldveggi (bls. 13 og 58-62) sem þurfi að vera til staðar varðandi viðkvæmar persónulegar upplýsingar í umsóknarferli um alþjóðlega vernd. Nauðsynlegt er að skýra hvar eldveggirnir liggja um leið og samskipti milli stofnana eru auðvelduð.

Þessu tengt er hlutverkaskipting innan kerfisins. Í nær öllum samtölum við hagaðila kom fram að hlutverk þeirra sem koma að móttöku barna er ekki alltaf skýrt. Það kom fram í samtölum við bæði börn og starfsfólk að börn hafi óskað eftir aðstoð tveggja stofnana sem bentu hvor á aðra og mál barnanna leystust aldrei. Bent var á að það skorti mjög á yfirsýn yfir móttökuferlið og að enginn einn aðili væri ábyrgur fyrir því að samræma aðkomu ólíkra hagaðila að ferli barnsins í gegnum ólík kerfi. Í verkefninu HEIMA hefur verið leitast við að sjá móttökuferlið sem eina heild þar sem margir ólíkir aðilar koma að og þurfa að vinna saman.

Í litlu kerfi hafa einstaklingar oft mikil áhrif og þá sérstaklega ef skortur er á sameiginlegum viðmiðum og verkferlum. Í samtölum við hagaðila kom margsinnis fram að sjónarmið og skoðanir starfsfólks skipti miklu máli. Bæta þurfi verkferla en líka að bjóða upp á fræðslu og stuðning ásamt því að setja skýra stefnu um hvernig skuli taka á móti börnum sem sækja um alþjóðlega vernd. Því tengt er öflugt eftirlit sem einnig tengist yfirsýn á kerfið. Það er mikilvægt að eftirlit sé haft með ferlinu öllu og það tryggt að sérfræðingar á þessu sviði sinni því eftirliti.

Tillögur og lausnir frá vinnustofum HEIMA

Í tveimur heilsdags vinnustofum unnu yfir þrjátíu sérfræðingar í móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd að hugmyndum um hvernig bæta mætti móttökuna. Tillögur þeirra byggja á sjónarmiðum barnanna og upplifun þeirra af móttökunni á Íslandi. Hugmyndirnar eru því alfarið komnar frá sérfræðingum á þessu sviði, en UNICEF á Íslandi styður hugmyndirnar heilshugar og teljum við að þær komi til móts við brýnasta vanda barna sem sækja um vernd hér á landi.

Í kjölfar vinnustofanna fengu börnin tækifæri til að segja sína skoðun á hugmyndum sérfræðinganna og voru gerðar breytingar á forgangsröðun hugmyndanna og áherslum í samræmi við athugasemdir barnanna.

Tillögunum er raðað eftir mikilvægi þar sem bæði sérfræðingar úr vinnustofum auk barna fengu tækifæri til að veita þeim hugmyndum atkvæði sem þeim þótti mikilvægastar.

mottaka2Asset 12.png

▼Lesa meira um Móttökuheimili fyrir fylgdarlaus börn

Lýsing:

Móttökuheimilið er sérstakt úrræði fyrir fylgdarlaus börn og ungmenni. Það er rekið af barnaverndaryfirvöldum og hefur það að markmiði að tryggja hagsmuni barna, öryggi þeirra, velferð, vellíðan og þroska. Mikilvægt er að strax sé hafinn undirbúningur fyrir næstu skref í lífi barnsins, hver sem þau verða. Á móttökuheimilinu er alltaf einhver fullorðinn á staðnum og reglur gilda eins og á venjulegu heimili. Þar fer fram þjálfun í heimilisverkum og lífsleikni. Eldaður er heitur matur á kvöldin og fastir viðburðir eru á dagskrá í hverri viku. Allir fá rödd en þurfa að fylgja reglum. Á efri hæð hússins fer viðtal Barnahúss fram og húsið er í göngufæri við skóla, sund, bókasafn og leikfimisal.

Heimili með slíkri umönnun eflir sjálfstraust barnanna og tryggir aðlögun að samfélaginu. Öruggt og glatt barn leiðir til glaðara samfélags. Hugmyndin er að færa þjónustu til barnanna. Í húsinu fara fram viðtöl og fræðsla en allt annað er sótt út í samfélagið. Húsnæðið er aldurs- og kynjaskipt eftir þörfum og börnin fá einstaklingsherbergi.

Fylgdarlaus börn fara á móttökuheimili strax við komu (4 - 6 einstaklingar), þar sem aðgengi er að fullorðnum allan sólarhringinn og nauðsynleg þjónusta tryggð með aðgengi að sérfræðingum. Börn fara sem fyrst til fósturfjölskyldu og fósturfjölskyldurnar fá handleiðslu. Börnunum er tryggð menntun eða vinna, auk tómstunda við hæfi.

Tillaga að breytingum:

  • Tryggja mat og hvíld við komu.
  • Fyrsta skýrslutaka sé eingöngu til að bera kennsl á viðkomandi og meta hvort hann eða hún eigi heima á móttökuheimili.
  • Tryggja sambærilega þjónustu fyrir 15 - 16 ára, 16 - 18 ára, og 18 - 21 árs en aðskilja búseturýmin.
  • Tryggja að sambærileg þjónusta sé í boði fyrir öll kyn.
  • Tryggja fóstur fyrir börn samkvæmt lögum.
  • Setja fylgdarlaus börn undir hatt einnar barnaverndarnefndar til að tryggja jafnræði í þjónustu.
  • Setja viðmið um lágmarksþjónustu barnaverndar við fylgdarlaus börn.
  • Setja verklagsreglur og tryggja virkt, upplýst eftirlit æðra stjórnvalds.
  • Allir hagaðilar vinna saman undir hatti móttökumiðstöðvar.

Hagaðilar eru dómsmálaráðuneyti, félags- og barnamálaráðuneyti, sveitarfélög, heilsugæslan, barnaverndaryfirvöld, fræðsluyfirvöld, lögreglan, talsmenn vegna umsókna barna og Útlendingastofnun.

Samlegðaráhrifin yrðu aukin skilvirkni fyrir Útlendingastofnun og barnavernd sem myndi skila sér í hraðari málsmeðferð og spara fjármagn til lengri tíma litið. Þetta myndi létta á þjónustukerfi, t.d. lögreglunni, fræðsluyfirvöldum, íþrótta- og tómstundastarfi, grunn- og framhaldsskólum o.s.frv.

Það sem hægt er að gera strax!

Á meðan beðið er eftir að breytingar gangi í gegn er hægt að bregðast strax við brýnustu áskorunum.

  1. Tryggja mat og hvíld við komu: Næringaríkur matur sé til staðar strax við komuna í móttökumiðstöðina í Bæjarhrauni. Að ekki sé tekin skýrsla af börnum um nætur. Hvíld, næring og heilsa sé tryggð áður en lögregla tekur skýrslu af barni.
  2. Umönnun í Bæjarhrauni: Ráða starfsmann til að hafa umsjón með fylgdarlausum börnum á Bæjarhrauni sem hefur umsjón með daglegum athöfnum barna, aðstoðar við eldamennsku og dagleg samskipti.
  3. Þjónusta við 18 til 21 árs: Tryggja ungmennum frá 18 - 21 árs áframhaldandi sambærilegri þjónustu og fylgdarlausum börnum.
  4. Næring: Gefa eina heita máltíð á dag sem börnin elda í samstarfi við starfsmann.
  5. Fósturfjölskyldur: Skylda barnaverndaryfirvöld til að sækja alltaf um fóstur.
  6. Nám og tómstundir: Koma öllum börnum í tómstundir og nám eða starfsnám.
  7. Eftirlit: Koma á virku eftirliti Barnarverndarstofu með aukinni þekkingu og ráðningu sérfræðings í málefnum barna á flótta.
gegneinmanna3Asset 20.png

▼Lesa meira um Gegn einmanaleika

Lýsing:

Gegn einmanaleika leggur áherslu á tómstundir og afþreyingu til að koma til móts við einmanaleika eftir skóla og kvíða fyrir skólafríum. Einnig að tómstundastarf sé í boði áður en skólaganga hefst. Verkefnið tryggir að öll börn hafi eitthvað við að vera sem hæfir þeirra áhugasviði og er einstaklingsbundin nálgun til þess að tengjast samfélaginu. Lögð er áhersla á áhugamál og tómstundir og að skapa sérsniðnar lausnir, til dæmis með aukinni nánd við dýr. Markmiðið er að tryggja jöfn tækifæri óháð búsetu og það er mikilvægt að þjónustuteymi sveitarfélaganna miðli af reynslu sinni.

Með verkefninu má koma í veg fyrir andleg vandamál og fordóma auk þess að búa til persónuleg tengsl í gegnum áhugamál. Til þess að fjölga valmöguleikum á tómstundum og kynna börn fyrir nýjum valkostum mætti leggja fyrir þau áhugasviðspróf eða leyfa þeim að prófa tvær til þrjár tómstundir.

Tillaga að breytingum:

  • Skýra rétt barnanna til tómstunda í lögum og reglugerð og tryggja jöfn tækifæri óháð búsetu.
  • Veita börnum tækifæri til tómstunda áður en skólaganga hefst.
  • Skýra skyldur sveitarfélaga við að veita menningar- og tómstundastarf í samningum Útlendingarstofnunar við sveitarfélögin.
  • Leggja fyrir áhugasviðspróf til að kanna hvaða tómstundir gætu hentað.
  • Leyfa börnunum að prófa ólíka tómstundir.
  • Lengd dvalar á ekki að skipta máli. Allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Hagaðilar eru sveitarfélög, íþróttafélög og listaskólar.

Samlegðaráhrif væru við íþróttafélög, tónlistaskóla og samfélagið í heild þar sem óvæntir hæfileikar og fjölbreytileiki geta styrkt starfið. Bætt andleg heilsa barnanna og fleiri tækifæri til að kynnast íslenskri menningu og hefja aðlögun.

Það sem er hægt að gera strax!

  1. Koma á samráðsvettvangi þjónustuteyma sveitarfélaganna.
  2. Skýra rétt barna til tómstunda í reglugerð og í samningum Útlendingastofnunar við sveitarfélög.
  3. Koma á námskeiðum fyrir börn í skólafríum. Skólafrí geta verið kvíðvænleg fyrir þennan hóp barna. Þau hafa ekki tækifæri til að ferðast, heimsækja ættingja eða stunda áhugamál. Sum þeirra búa jafnframt í þröngu húsnæði við þröngan kost. Hjá sveitarfélögum og félagasamtökum á borð við Skátana eru tækifæri til að auka samvinnu og auka framboð fyrir þennan hóp barna.
  4. Bjóða börnum upp á tómstundastarf frá fyrsta degi óháð þjónustuaðila.
heilsugæsla2Asset 16.png

▼Lesa meira um Heilsugæslu fyrir alla

Lýsing:

Heilsugæslan opni almenna þjónustu sína fyrir umsækjendur og þjónusta sé samþætt svo fólk fái upplýsingar strax um hvert skuli leita. Nú er öll heilsugæsla á hendi göngudeildar sóttvarna, sem hefur þau áhrif að sóttvarnarskoðun, sem m.a. er forsenda skólavistar barna, frestast oft fram úr hófi. Á heilsugæslunni eru möguleikar á að þróa fræðslu til foreldra um næringu, heimilisofbeldi o.s.frv. og möguleiki á að bjóða sálfræðiaðstoð.

Hagaðilar væru heilbrigðisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, félag- og barnamálaráðuneyti og Útlendingastofnun. Ásamt Heilsugæslunni, Rauða krossinum, umsækjendum um alþjóðlega vernd og þjónustuteymi Hafnarfjarðar, Reykjanesbæjar og Reykjavíkur.

Samlegðaráhrif yrðu að allt starfsfólk heilsugæslunnar lærir að nýta sér túlkaþjónustu á borð við Language Line. Jákvætt viðhorf gagnvart fjölbreyttum hópum eykst. Það dregur úr líkum á alvarlegri vanda og minnkar álag á aðra starfsmenn þjónustunnar. Þá væri hægt að stuðla að jákvæðari umfjöllun í fjölmiðlum.

Tillaga að breytingum:

  • Heilbrigðisyfirvöld tryggi öllum börnum jafnan aðgang að heilsugæslu.
  • Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins standi við samning við Útlendingastofnun sem kveður á um almennan aðgang að heilsugæslustöðvum.

Það sem hægt er að gera strax!

  1. Gefa út upplýsingaefni og koma á eftirfylgni hjá Útlendingastofnun fyrstu vikurnar til að tryggja að börn og foreldrar fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu Við upphaf ferlisins getur lögregla og Útlendingastofnun gefið skýrari upplýsingar um rétt umsækjenda til heilbrigðisþjónustu og hvert skuli leita. Þá væri hægt að spyrja í viðtölum hvort fólk njóti heilbrigðisþjónustu. Það sama mætti gera þegar umsækjendur flytjast yfir í þjónustu sveitarfélaganna.
  2. Fræða starfsfólk heilbrigðisstofnana, sérstaklega starfsfólk í móttöku, um réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd og halda námskeið um notkun túlkaþjónustu á borð við Language Line.
  3. Tryggja þarf að allt starfsfólk heilbrigðisstofnana þekki rétt umsækjenda um alþjóðlega vernd og þekki verklag sinnar stofnunnar. Setja má saman upplýsingapakka eða námskeið fyrir framlínustarfsmenn ásamt því að kenna öllu starfsfólki á túlkaþjónustu.
  4. Taka burtu hindranir vegna kennitöluleysis. Gjarnan er bent á að skortur á kennitölu sé það sem hindri fólk í því að fá þjónustu. Ef útlendinganúmer yrðu samræmd í eitt númer, væri með auðveldum hætti hægt að nota þau númer til að rekja komur umsækjenda í heilbrigðisþjónustunni. Einnig væri hægt að gefa út tímabundnar kennitölur í stað útlendinganúmera til að tryggja aðgang.
upplyysingasetur2Asset 17.png

▼Lesa meira um Upplýsingasetrið

Lýsing:

Upplýsingasetrið er bæði miðstöð upplýsinga og félagsmiðstöð (e. migration center). Þar er rafræn upplýsingaþjónusta, upplýsingafulltrúar, íslenskunámskeið fyrir foreldra, leiksvæði og dagvistun fyrir börn á sama stað. Markmiðið er að auka upplýsingaflæði, draga úr félagslegri einangrun og óvissu, bæta andlega líðan, einfalda kerfið og auðvelda biðina fyrir ung börn. Upplýsingasetur er mikilvægt til að koma til móts við upplifun barna og foreldra þeirra á mikilli óvissu og vanþekkingu á íslensku samfélagi sem leiðir til kvíða og hjálparleysis.

Setrið mætir mikilvægri þörf fyrir upplýsingar um samfélagið og réttindi og skyldur umsækjenda. Það eykur virkni og léttir á öðrum aðilum í kerfinu, er atvinnuskapandi og dregur úr fordómum. Setrið hefur jákvæð áhrif á aðlögun umsækjenda sem í kjölfarið er jákvætt fyrir samfélagið allt.

Hagaðilar eru umsækjendur, ráðuneyti, sveitarfélög, Útlendingstofnun, Rauði krossinn, ásamt sjálfboðaliðum.

Samlegðaráhrifum væri hægt að ná fram með því að nýta húsnæðið í aðra starfsemi og tengja við aðra starfsemi. Hægt væri að setja upp slíka miðstöð til prufu til dæmis í Hafnarfirði, sem stefnir að því að verða barnvænt sveitarfélag.

Það sem er hægt að gera strax!

  1. Barnvænar upplýsingar: Búa til barnvænar upplýsingar um réttindi barna á Íslandi og umsóknarferlið.
  2. Fræðsla fagaðila: Efla þekkingu allra þeirra sem þjónusta umsækjendur um réttindi og skyldur umsækjenda um alþjóðlega vernd.
  3. Nýta bókasöfn: Búa til upplýsingapunkt á bókasöfnum sveitarfélaganna þar sem börn og foreldrar geta sótt á eigin forsendum upplýsingar um samfélagið, tómstundir, samgöngur, réttindi og skyldur.
listskopun2Asset 13.png

▼Lesa meira um Listsköpun barna

Lýsing:

Markmið verkefnisins er að börn sem sækja um alþjóðlega vernd kynnist og deili upplýsingum til að rjúfa einangrun þeirra og vinna gegn óöryggi og kvíða. Stofnuð yrði hljómsveit barna og haldnar listasýningar barna. Mikilvægt væri að bjóða íslenskum börnum til þátttöku. Virkjaðir yrðu myndlistaskólar og aðrir listaskólar. Finna þyrfti húsnæði, starfsmenn og virkja þekkta listamenn. Prufukeyrsla færi af stað eftir að skóla lýkur að vori, t.d. 5 dagar frá kl. 13 - 16.

Þetta hefði jákvæð áhrif á líðan barnanna og foreldra þeirra og myndi opna á milli menningarheima. Markmiðið væri að slíkt nám væri opið börnum frá komu þeirra til landsins og myndi tryggja virkni þeirra frá fyrstu viku. Listsköpun krefst ekki tungumáls og stuðlar að betri andlegri líðan og félagslegum tengslum. Þátttaka í slíku verkefni eykur líkur á jákvæðara viðhorfi og styttir biðina, auk þess að hjálpa til við aðlögun. Hægt væri til dæmis að tengja verkefnið vinaverkefnum í skólanum. Þá væri hægt að tengja verkefnið frístund og félagsmiðstöðvum. Verkefnið skapar góðar minningar en gæti líka valdið vonbrigðum þegar tímabilinu lýkur og tengsl rofna aftur.

Það sem er hægt að gera strax!

  1. Sumarnámskeið: Tryggja börnum aðgengi að sumarnámskeiðum í samstarfi við sveitarfélögin og þróa sérsniðin sumarnámskeið fyrir þennan hóp í júlí, þegar önnur námskeið eru ekki í gangi.
  2. Samstarf: Leita eftir samstarfi við listaskóla og listgreinakennara við þróun á verkefni.
utivistogvinattaAsset 19.png

▼Lesa meira um Útivist og vináttu

Lýsing:

Útivist og vinátta er félagsstarf sem byggir brýr og auðveldar vináttu og samskipti milli barna og ungmenna. Það er hægt að skipuleggja starfið innandyra og utan, t.d. með göngum og útilegum þar sem börnin styðja hvort og vinna saman að því að rækta vináttu og skilning sem þau rækta áfram í gegnum leik og starf.

Styrkleikar hugmyndarinnar eru að í henni felst óformlegt nám, tungumálanám, frelsi, tenging við náttúruna og þekking á henni, samvera og tengsl. Með hugmyndinni má minnka einangrun og auka virkni auk þess að kynna börn fyrir nýrri menningu og nýjum stöðum. Hægt væri að koma á samstarfi við til dæmis skátahreyfinguna og/eða Hitt húsið. Hugmyndin væri að prófa verkefnið á einum stað einu sinni í mánuði og hlusta eftir skoðunum og upplifun barnanna eftir ferðirnar. Minni útgáfa af verkefninu væri að fara á staði sem leyfa hreyfingu og virkni, t.d. Trampólíngarðinn.

Hagaðilar eru sveitarfélög, Skátarnir, hjálparsveitir, ferðaþjónustufyrirtæki.

Samlegðaráhrif gætu verið aukin færni skátahreyfingarinnar eða annarra í umönnun barna með fjölbreyttan bakgrunn.

hondihond2Asset 14.png

▼Lesa meira um Hönd í hönd - stuðningsfjölskyldur fyrir umsækjendur um vernd

Lýsing:

Hönd í hönd er sjálfboðaliðakerfi þar sem þeir umsækjendur sem kjósa geta eignast vin eða stuðningsfjölskyldu sem aðstoðar við daglegt líf eða veitir félagsskap. Stuðningurinn gæti jafnframt falið í sér ráðgjöf um íslenskt samfélag. Þetta er mikilvægt verkefni því það dregur úr einangrun og jaðarsetningu, eykur samfélagslega aðlögun og upplifun og sjálfstraust.

Umsóknarferli gæti verið stafrænt ásamt fræðslu um verkefnið. Hins vegar þyrftu samskiptin líka að vera mannleg og stuðla að gagnkvæmri vináttu. Það gæti reynst erfitt að fá sjálfboðaliða í byrjun og þá væri gott að leita til þeirra sem hafa einhvern tímann verið í sömu sporum t.d. Íslendinga sem hafa búið erlendis eða útlendinga sem flust hafa til Íslands.

Til að hugmyndin sé skilvirk þarf einn aðila sem heldur utan um verkið. Samstarf væri mögulegt t.d. við Háskóla Íslands. Kostnaður væri lítill miðað við ávinning. Sjálfboðaliðar og fjölskyldur í leit að vernd færu á námskeið og fengju kynningarmyndband sem væru sniðin að fullorðnum jafnt sem börnum. Þá þyrfti starfsmann til að halda utan um sjálfboðaliða og hlúa að þeim.

Hugmyndin er nokkuð skýr þar sem stuðningsfjölskylduhlutverk er þekkt í samfélaginu og hún er því vel framkvæmanleg. Hindranir gætu verið að meta stuðningsfjölskyldur og finna fólk sem passar saman. Mikilvægt að sinna eftirfylgni þannig að verkefnið sér virkt úrræði.

▼Lesa meira um Skýrar og aðgengilegar upplýsingar um heilbrigðisþjónustu

Lýsing:

Mikilvægt er að fjölskyldur og börn fái skýrar og aðgengilegar upplýsingar um heilbrigðisþjónustu sem þeim býðst. Hugmyndin er að í móttökuviðtali hjá Útlendingastofnun séu börn og foreldrar sérstaklega upplýst um aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Veittar eru skýrar og réttar upplýsingar í upphafi ferlisins sem eru aðgengilegar á skriflegan og myndrænan hátt. Jafnframt er reglulegt innlit og eftirfylgni tryggð þar sem gengið er úr skugga um að fólk fái þá þjónustu sem það vantar. Þegar börn flytjast yfir til sveitarfélaganna eru samskipti milli Útlendingastofnunar og viðkomandi hælisteymis tryggð og starfsfólk Útlendingastofnunar útbýr upplýsingar um stöðu barnsins við þjónustulok.

Tillaga að breytingum:

  • Réttar upplýsingar um heilbrigðisþjónustu tryggðar hjá Útlendingastofnun.
  • Búa til myndrænt efni um heilbrigðisþjónustu á Íslandi
  • Aukið samstarf Útlendingastofnunar við þjónustuteymi sveitarfélaganna.
  • Þróa og dreifa fræðsluefni til starfsfólks.

Hagaðilar eru Útlendingastofnun (framkvæmdaraðili), Dómsmálaráðuneytið (fjármagn), þjónustuteymi sveitarfélaga (samstarf), Rauði krossinn, Landlæknir og Heilbrigðisráðuneyti.

Samlegðaráhrif eru fólgin í efni sem gæti nýst fyrir aðra innflytjendur. Meiri upplýsingar í upphafi minnkar álag á alla hagaðila og undirbýr betur árangursríka aðlögun. Fá fagfólk (auglýsingastofu, listaháskólann, háskóla) til að gera gæðaefni.

Um verkefnið

Undanfarin ár hefur fjöldi barna sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi aukist verulega. Aðstæður barnanna hér á landi hafa mætt gagnrýni frá frjálsum félagasamtökum og almenningi og árið 2018 gaf rannsóknarstofnun UNICEF út skýrslu um stöðu þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Norðurlöndum. Skýrslan leiddi í ljós brotalamir í móttöku barna í öllum ríkjunum. 

Í framhaldinu var ákvað UNICEF á Íslandi að beina sjónum að 3. grein Barnasáttmálans sem fjallar um það sem barni er fyrir bestu. Verkefnið HEIMA skoðar móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi frá sjónarhóli barnanna sjálfra og varpar þannig ljósi á þau atriði sem stjórnvöld þurfa að huga betur að til að uppfylla 3. greinina. Meginmarkmið verkefnisins er þannig að koma auga á helstu áskoranirnar við móttöku barnanna og finna raunhæfar lausnir á því hvernig stjórnvöld geta betur framfylgt skuldbindingum Íslands gagnvart börnum.

▼Lesa meira um réttindi barna á flótta

Verkefnið HEIMA byggir í grunninn á þriðju grein Barnasáttmálans, sem krefur stjórnvöld um að leggja mat á það sem barni er fyrir bestu í ákvörðunum sínum. Þetta er ein af grundvallargreinum sáttmálans, ásamt rétti barns til lífs og þroska, tjáningar og jafnræðis. Þriðja greinin kveður á um að „það sem barni [sé] fyrir bestu [skuli] ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn“. Það sem barni er fyrir bestu er þannig einn af grunnþáttum móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd og er í senn réttur, meginregla og málsmeðferðarregla.

En mannréttindi eru meira en orð á blaði. Til þess að börn njóti í raun mannréttinda sinna þurfa athafnir fullorðinna að endurspegla réttindi þeirra, svo sem í ákvörðunum sem teknar eru, verklagi, viðmóti og viðhorfum. Þetta þýðir að allir sem taka ákvarðanir sem varða börn þurfa að meta hvað sé þeim fyrir bestu og setja hagsmuni þeirra í forgang. Stjórnvöld eru hvött til þess að gera slíkt mat skipulega og sjá til þess að sérfræðingar í málefnum barna komi að matinu. Þar skal m.a. líta til velferðar, þroska, auðkennis, öryggis, jafnræðis, menntunar, heilbrigðisþjónustu, viðkvæmrar stöðu, umönnunar, skoðana barns, fjölskyldu og fjölskyldusameiningar.

Mat á því sem barni eru fyrir bestu ætti að framkvæma á öllum stigum móttökuferlisins. Annars vegar til að meta hvaða þjónustu barn hefur þörf fyrir. Hins hvernig grundvallarréttindi þess eru best tryggð þegar tekin er ákvörðun um synjun eða veitingu verndar. Það er mikilvægt að skilja hvernig þessir tveir þættir matsins vinna saman. Í raun má segja að annað geti ekki virkað án hins, þ.e. ekki er hægt að leggja mat á hvort það sé barni fyrir bestu að dvelja í viðkomandi ríki nema að undangengnu mati, af þar tilbærum aðilum, á hagsmunum barnsins. Þá er jafnframt ómögulegt að taka ákvarðanir varðandi barn, sem byggja á mati á því sem barninu er fyrir bestu, án þess að slíkt mat sé hluti af ákvörðun um synjun eða veitingu verndar.

Þegar við fengum aftur synjun leið mér eins og ég væri týnd. Ég var reið, hrædd og ringluð

Samantekt á niðurstöðum viðtala

Niðurstöður verkefnisins byggja á sjónarmiðum barna og ungs fólks á aldrinum 7-21 árs, sem öll eiga það sameiginlegt að hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þau eru af ólíkum uppruna og búa við ólíkar aðstæður. Þau komu til landsins ýmist ein eða í fylgd með foreldrum og þegar við hittumst voru þau ýmist komin með vernd eða enn í umsóknarferli. Að auki byggja niðurstöðurnar á sjónarmiðum foreldra og voru jafnframt bornar saman við sjónarmið þeirra hagaðila sem koma að móttöku barna. Hér gefur að líta samantekt á helstu áskorunum barna og það sem foreldrar og hagaðilar bentu á að gæti hjálpað börnum að líða betur:

▼Takmarkaðar upplýsingar gera móttökuferlið óskýrt og lítið er gert til að útskýra það fyrir börnum

Við komuna til Íslands sögðust mörg börn vera hrædd við lögreglu og aðra fulltrúa yfirvalda vegna neikvæðrar fyrri reynslu. Mikilvægt er að byggja upp traust gagnvart yfirvöldum og veita skýrar upplýsingar sem nýtast börnum til að átta sig á stöðu sinni. Börnin upplifðu óvissu og óöryggi því þau vissu ekki hvað myndi gerast næst eða hvenær. Það er því mikilvægt að upplýsa börn um móttökuferlið og leitast við að gera tímalínu ferlisins ljósari frá upphafi. Mjög skortir á barnvænt efni og barnvæna aðstöðu þar sem upplýsingar eru veittar með skilvirkum hætti, en í ljós kom að staðir sem höfðu aðstöðu fyrir börn voru þeim í fersku minni ásamt því að upplifun þeirra varð jákvæðari. Börnin upplifðu mikla bið og þótti það erfitt. Því er mikilvægt að hafa aðgengi að viðeigandi leikföngum, afþreyingu eða tómstundum. Þá skorti mjög á undirbúning og aðstoð við börn sem fá synjun um vernd.

▼Aðstaða óviðunandi og takmarkandi í daglegu lífi

Flest börnin lýstu því að hafa verið svöng, þreytt og kalt fyrstu sólarhringana á Íslandi. Þegar búsetuúrræði voru afskekkt og skortur var á leikföngum og leiksvæðum lýstu börnin einmanaleika. Flest börnin lýstu því að fyrstu herbergin sem þau gistu í hefðu verið skítug og ófullbúin. Þau lýstu mikilli þreytu þegar þau þurftu að aðstoða við að þrífa herbergið við komuna, jafnvel um miðjar nætur. Þá skipti það börnin miklu máli að það væri svefnaðstaða fyrir alla í fjölskyldunni, en svo hafði ekki verið í öllum tilvikum. Oftast reyndist húsnæði á vegum sveitarfélaganna vera betra. Ef boðið væri upp á næringarríkan mat strax við komu, ásamt því að tryggja viðunandi aðstæður í húsnæði, mætti auka vellíðan barnanna fyrstu sólarhringana ásamt því að byggja upp nauðsynlegt traust.

▼Skortur á virkniúrræðum bæði fyrir og eftir að skólaganga hefst

Börn upplifa einmanaleika á Íslandi og lýsa skorti á leiðsögn og aðstoð frá fullorðnum. Þau lýstu miklum áhuga á námi og skóla en upplifðu ekki að fullorðnir tækju á móti þeim í skólanum. Þau upplifðu að ábyrgðin á aðlögun í skóla væri sett á herðar annarra barna af erlendum uppruna. Munur reyndist vera milli sveitarfélaga varðandi boð um tómstundir eða önnur virkniúrræði, þar sem börn búsett í Hafnarfirði fengu ekki boð um slíkt. Það er mikilvægt að börn í þessum aðstæðum hafi eitthvað fyrir stafni utan skóla. Oft á tíðum eru erfiðar aðstæður heima fyrir þar sem umsóknarferlið er mjög kvíðvænlegt og það léttir því á aðstæðum þegar börnin hafa hugann við aðra hluti. Flest börnin lýstu miklum áhuga á því að læra íslensku og töluðu um mikilvægi tungumálsins jafnt félagslega og varðandi menntun.

▼Erfiðleikar með aðgengi að heilbrigðisþjónustu

Foreldrar lýstu áhyggjum af aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Einungis var hægt að sækja heilbrigðisþjónustu í gegnum félagsráðgjafa en aðgengi að þeim er mismikið eftir sveitarfélögum. Þá virðist ekki skýrt hvert umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjavík og Hafnarfirði eigi að sækja slíka þjónustu. Samningur Útlendingastofnunar við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kveður á um aðgengi að almennum heilsugæslustöðvum, en í framkvæmd stendur fólki aðeins göngudeild sóttvarna í Mjódd til boða. Takmarkað aðgengi að heilsugæslu hafði þau áhrif að heilbrigðisvandi varð stundum mun erfiðari og krafðist flóknari inngripa en ef brugðist hefði verið við strax. Að auki myndi það hafa víðtæk jákvæð áhrif að auka aðgengi að heilsugæslustöðvum, m.a. flýta sóttvarnarskoðunum, sem eru forsenda skólagöngu barna. Til viðbótar bentu börn, sem höfðu upplifað alvarlega veikindi foreldra, á að þau hefðu fengið lítinn stuðning.

▼Skortur á umönnun og stuðningi við fylgdarlaus börn

Fylgdarlaus börn koma til landsins án foreldra sinna og eru því í umsjá barnaverndaryfirvalda. Nokkur munur var á upplifun fylgdarlausra barna eftir því hvenær þau komu til landsins og hvort þau urðu 18 ára á meðan umsóknarferli stóð. Áður en lögum um útlendinga var breytt voru fylgdarlaus börn sett í umsjá barnaverndar og bjuggu í húsnæði á þeirra vegum eða hjá fósturfjölskyldu. Börn sem komu á því tímabili upplifðu mikinn stuðning frá félagsráðgjöfum sínum og fósturforeldrum. Gott samstarf félagsráðgjafa og barns eykur sjálfstraust og fjölgar tækifærum til náms, tómstunda, fósturs og annarra úrræða. Þeim þótti samt sem áður erfitt að koma til landsins og að fóta sig í nýju samfélagi og biðin og synjanir í umsóknarferlinu voru þeim á köflum ofviða. En með stuðningi komust þau í gegnum ferlið. Börn sem komu eftir gildistöku nýju laganna upplifðu annan veruleika.

Nýju lögin heimila að börn eldri en 15 ára séu vistuð í húsnæði Útlendingastofnunar við Bæjarhraun í Hafnarfirði. Það er samdóma álit bæði barna og sérfræðinga á starfa á þessu sviði að aðstæður í Bæjarhrauni séu óviðunandi. Börnin upplifðu ótta, óöryggi og vonleysi því þau skorti alla umönnun. Þau lýstu þrá eftir mikilvægum fullorðnum aðila sem aðstoðar þau með daglegar athafnir og við umsóknarferlið í samvinnu við þau. Það eykur tilfinningu um sjálfstæði og sjálfsvirðingu þegar barnið er virkur hluti af umsóknarferlinu, meðal annars í vinnu talsmanns. Börnin upplifðu mikinn skort á upplýsingum um umsóknarferlið og stöðuna hverju sinni, ásamt upplýsingum um samfélagið. Þau fengu vikulegan vasapening og var ætlast til að þau versluðu og elduðu sjálf mat. Þau lýstu söknuði ef góðum mat og áhyggjum af lélegri næringu. Heitur og góður matur er mikilvægur börnunum og dregur úr einmanaleika.

Þennan hóp skortir gjarnan menntun og tungumálakennslu sem veldur þeim áhyggjum af því að missa af tækifærum til náms og takmörkuðu sjálfstæði. Þá upplifðu þau mikinn skort á virkni og þeim hafði ekki boðist fóstur. Fósturfjölskyldur auka mjög á tækifæri barnanna til að skilja umsóknarferlið og íslenskt samfélag. Þær létta álagið af biðinni og aðstoða við að undirbúa framtíðina. Áhyggjur af eigin fjölskyldu voru börnunum ofarlega í huga en sum lýstu skorti á aðstoð við fjölskyldusameiningu eftir að vernd hafði verið veitt. Almennt höfðu þau sem enn voru í umsóknarferli miklar áhyggjur af framtíðinni og fengu ekki aðstoð við að undirbúa framtíðina. Neikvæðar og afar erfiðar breytingar verða við 18 ára aldur. Þá er svo litið á að barnið sé orðið fullorðið og það flutt í verri úrræði með fullorðnum.

▼Foreldrar hafa áhyggjur af líðan og framtíð barna sinna

Foreldrar lýstu miklum áhyggjum af líðan barna sinna. Þau töldu sig flest vera í erfiðleikum með að vernda börnin fyrir aðstæðum, sérstaklega þegar fjölskyldan bjó í sama húsnæði og aðrir umsækjendur. Foreldrar voru aðgerðalausir, upplifðu mikla vanlíðan þess vegna og skorti upplýsingar um réttindi sín og skyldur. Sum höfðu upplifað vöntun á samráði við þau vegna barnanna og flest fólkið upplifði ótta, vonleysi og hjálparleysi gagnvart umsóknarferlinu. Gott aðgengi að þjónustu og upplýsingum hjálpar foreldrum að sinna sínu hlutverki vel. Meiri virkni foreldra hjálpar þeim við takast á við bið og óvissu.

 

Aðstandendur og umgjörð

Allt efni sem er að finna á þessari heimasíðu var upphaflega unnið fyrir skýrslu sem skilað var til félagsmálaráðuneytisins í júní 2019. Aðstandendur verkefnisins þakka ráðuneytinu fyrir stuðninginn og opinn hug fyrir verkefninu.

Að verkefninu koma UNICEF á Íslandi í samstarfi við hönnuðinn Búa Bjarmar Aðalsteinsson fyrir hönd Grallaragerðarinnar. Þá var undirbúningur og framkvæmd verkefnisins með þátttöku og í góðu samstarfi við eftirfarandi aðila:

  • Félagsmálaráðuneytið

  • Dómsmálaráðuneytið

  • Útlendingastofnun

  • Listaháskóla Íslands

  • Hönnunarmiðstöð Íslands

  • Umboðsmann barna

Verkefnið Heima var unnið útfrá sambærilegu sænsku verkefni að nafni ’Heilnæm mótttaka’ sem unnið var af Fornyelse Labbet, SVID (Hönnunarmiðstöð Svíþjóðar) og UNHCR árið 2018.

Þar að auki tóku eftirfarandi aðilar þátt eða studdu við verkefnið:

  • Móttökudeild við Hvaleyrarskóla

  • Þjónustuteymi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjavík, Hafnarfirði og Reykjanesbæ

  • Kærunefnd útlendingamála

  • Barnaverndarstofa

  • Barnahús

  • Barnavernd Sandgerðis og Reykjavíkur

  • Réttur

  • Bíó Paradís

  • Rauði krossinn

  • Erna Huld Ibrahimsdóttir, túlkur

  • Kinan Kadoni, túlkur

Einnig viljum við koma á framfæri þakklætisóskum til foreldra sem treystu okkur og hleyptu okkur inn á heimili sín og börnunum sem sýndu mikið hugrekki með að deila sögum úr lífi sínu.

 Frekari upplýsingar

Ef óskað eftir nánari upplýsingum um verkefnið er hægt að senda póst á eftirfarandi netföng:

  • Eva Bjarnadóttir - evab@unicef.is

  • Búi Bjarmar Aðalsteinsson - buibjarmar@gmail.com