Samantekt á niðurstöðum viðtala

Niðurstöður verkefnisins byggja á sjónarmiðum barna og ungs fólks á aldrinum 7-21 árs, sem öll eiga það sameiginlegt að hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þau eru af ólíkum uppruna og búa við ólíkar aðstæður. Þau komu til landsins ýmist ein eða í fylgd með foreldrum og þegar við hittumst voru þau ýmist komin með vernd eða enn í umsóknarferli. Að auki byggja niðurstöðurnar á sjónarmiðum foreldra og voru jafnframt bornar saman við sjónarmið þeirra hagaðila sem koma að móttöku barna. Hér gefur að líta samantekt á helstu áskorunum barna og það sem foreldrar og hagaðilar bentu á að gæti hjálpað börnum að líða betur:

▼Takmarkaðar upplýsingar gera móttökuferlið óskýrt og lítið er gert til að útskýra það fyrir börnum

Við komuna til Íslands sögðust mörg börn vera hrædd við lögreglu og aðra fulltrúa yfirvalda vegna neikvæðrar fyrri reynslu. Mikilvægt er að byggja upp traust gagnvart yfirvöldum og veita skýrar upplýsingar sem nýtast börnum til að átta sig á stöðu sinni. Börnin upplifðu óvissu og óöryggi því þau vissu ekki hvað myndi gerast næst eða hvenær. Það er því mikilvægt að upplýsa börn um móttökuferlið og leitast við að gera tímalínu ferlisins ljósari frá upphafi. Mjög skortir á barnvænt efni og barnvæna aðstöðu þar sem upplýsingar eru veittar með skilvirkum hætti, en í ljós kom að staðir sem höfðu aðstöðu fyrir börn voru þeim í fersku minni ásamt því að upplifun þeirra varð jákvæðari. Börnin upplifðu mikla bið og þótti það erfitt. Því er mikilvægt að hafa aðgengi að viðeigandi leikföngum, afþreyingu eða tómstundum. Þá skorti mjög á undirbúning og aðstoð við börn sem fá synjun um vernd.

▼Aðstaða óviðunandi og takmarkandi í daglegu lífi

Flest börnin lýstu því að hafa verið svöng, þreytt og kalt fyrstu sólarhringana á Íslandi. Þegar búsetuúrræði voru afskekkt og skortur var á leikföngum og leiksvæðum lýstu börnin einmanaleika. Flest börnin lýstu því að fyrstu herbergin sem þau gistu í hefðu verið skítug og ófullbúin. Þau lýstu mikilli þreytu þegar þau þurftu að aðstoða við að þrífa herbergið við komuna, jafnvel um miðjar nætur. Þá skipti það börnin miklu máli að það væri svefnaðstaða fyrir alla í fjölskyldunni, en svo hafði ekki verið í öllum tilvikum. Oftast reyndist húsnæði á vegum sveitarfélaganna vera betra. Ef boðið væri upp á næringarríkan mat strax við komu, ásamt því að tryggja viðunandi aðstæður í húsnæði, mætti auka vellíðan barnanna fyrstu sólarhringana ásamt því að byggja upp nauðsynlegt traust.

▼Skortur á virkniúrræðum bæði fyrir og eftir að skólaganga hefst

Börn upplifa einmanaleika á Íslandi og lýsa skorti á leiðsögn og aðstoð frá fullorðnum. Þau lýstu miklum áhuga á námi og skóla en upplifðu ekki að fullorðnir tækju á móti þeim í skólanum. Þau upplifðu að ábyrgðin á aðlögun í skóla væri sett á herðar annarra barna af erlendum uppruna. Munur reyndist vera milli sveitarfélaga varðandi boð um tómstundir eða önnur virkniúrræði, þar sem börn búsett í Hafnarfirði fengu ekki boð um slíkt. Það er mikilvægt að börn í þessum aðstæðum hafi eitthvað fyrir stafni utan skóla. Oft á tíðum eru erfiðar aðstæður heima fyrir þar sem umsóknarferlið er mjög kvíðvænlegt og það léttir því á aðstæðum þegar börnin hafa hugann við aðra hluti. Flest börnin lýstu miklum áhuga á því að læra íslensku og töluðu um mikilvægi tungumálsins jafnt félagslega og varðandi menntun.

▼Erfiðleikar með aðgengi að heilbrigðisþjónustu

Foreldrar lýstu áhyggjum af aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Einungis var hægt að sækja heilbrigðisþjónustu í gegnum félagsráðgjafa en aðgengi að þeim er mismikið eftir sveitarfélögum. Þá virðist ekki skýrt hvert umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjavík og Hafnarfirði eigi að sækja slíka þjónustu. Samningur Útlendingastofnunar við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kveður á um aðgengi að almennum heilsugæslustöðvum, en í framkvæmd stendur fólki aðeins göngudeild sóttvarna í Mjódd til boða. Takmarkað aðgengi að heilsugæslu hafði þau áhrif að heilbrigðisvandi varð stundum mun erfiðari og krafðist flóknari inngripa en ef brugðist hefði verið við strax. Að auki myndi það hafa víðtæk jákvæð áhrif að auka aðgengi að heilsugæslustöðvum, m.a. flýta sóttvarnarskoðunum, sem eru forsenda skólagöngu barna. Til viðbótar bentu börn, sem höfðu upplifað alvarlega veikindi foreldra, á að þau hefðu fengið lítinn stuðning.

▼Skortur á umönnun og stuðningi við fylgdarlaus börn

Fylgdarlaus börn koma til landsins án foreldra sinna og eru því í umsjá barnaverndaryfirvalda. Nokkur munur var á upplifun fylgdarlausra barna eftir því hvenær þau komu til landsins og hvort þau urðu 18 ára á meðan umsóknarferli stóð. Áður en lögum um útlendinga var breytt voru fylgdarlaus börn sett í umsjá barnaverndar og bjuggu í húsnæði á þeirra vegum eða hjá fósturfjölskyldu. Börn sem komu á því tímabili upplifðu mikinn stuðning frá félagsráðgjöfum sínum og fósturforeldrum. Gott samstarf félagsráðgjafa og barns eykur sjálfstraust og fjölgar tækifærum til náms, tómstunda, fósturs og annarra úrræða. Þeim þótti samt sem áður erfitt að koma til landsins og að fóta sig í nýju samfélagi og biðin og synjanir í umsóknarferlinu voru þeim á köflum ofviða. En með stuðningi komust þau í gegnum ferlið. Börn sem komu eftir gildistöku nýju laganna upplifðu annan veruleika.

Nýju lögin heimila að börn eldri en 15 ára séu vistuð í húsnæði Útlendingastofnunar við Bæjarhraun í Hafnarfirði. Það er samdóma álit bæði barna og sérfræðinga á starfa á þessu sviði að aðstæður í Bæjarhrauni séu óviðunandi. Börnin upplifðu ótta, óöryggi og vonleysi því þau skorti alla umönnun. Þau lýstu þrá eftir mikilvægum fullorðnum aðila sem aðstoðar þau með daglegar athafnir og við umsóknarferlið í samvinnu við þau. Það eykur tilfinningu um sjálfstæði og sjálfsvirðingu þegar barnið er virkur hluti af umsóknarferlinu, meðal annars í vinnu talsmanns. Börnin upplifðu mikinn skort á upplýsingum um umsóknarferlið og stöðuna hverju sinni, ásamt upplýsingum um samfélagið. Þau fengu vikulegan vasapening og var ætlast til að þau versluðu og elduðu sjálf mat. Þau lýstu söknuði ef góðum mat og áhyggjum af lélegri næringu. Heitur og góður matur er mikilvægur börnunum og dregur úr einmanaleika.

Þennan hóp skortir gjarnan menntun og tungumálakennslu sem veldur þeim áhyggjum af því að missa af tækifærum til náms og takmörkuðu sjálfstæði. Þá upplifðu þau mikinn skort á virkni og þeim hafði ekki boðist fóstur. Fósturfjölskyldur auka mjög á tækifæri barnanna til að skilja umsóknarferlið og íslenskt samfélag. Þær létta álagið af biðinni og aðstoða við að undirbúa framtíðina. Áhyggjur af eigin fjölskyldu voru börnunum ofarlega í huga en sum lýstu skorti á aðstoð við fjölskyldusameiningu eftir að vernd hafði verið veitt. Almennt höfðu þau sem enn voru í umsóknarferli miklar áhyggjur af framtíðinni og fengu ekki aðstoð við að undirbúa framtíðina. Neikvæðar og afar erfiðar breytingar verða við 18 ára aldur. Þá er svo litið á að barnið sé orðið fullorðið og það flutt í verri úrræði með fullorðnum.

▼Foreldrar hafa áhyggjur af líðan og framtíð barna sinna

Foreldrar lýstu miklum áhyggjum af líðan barna sinna. Þau töldu sig flest vera í erfiðleikum með að vernda börnin fyrir aðstæðum, sérstaklega þegar fjölskyldan bjó í sama húsnæði og aðrir umsækjendur. Foreldrar voru aðgerðalausir, upplifðu mikla vanlíðan þess vegna og skorti upplýsingar um réttindi sín og skyldur. Sum höfðu upplifað vöntun á samráði við þau vegna barnanna og flest fólkið upplifði ótta, vonleysi og hjálparleysi gagnvart umsóknarferlinu. Gott aðgengi að þjónustu og upplýsingum hjálpar foreldrum að sinna sínu hlutverki vel. Meiri virkni foreldra hjálpar þeim við takast á við bið og óvissu.