Áskoranir innan stjórnsýslunnar

Í samtölum vegna verkefnisins HEIMA við yfir 40 einstaklinga frá fimmtán mismunandi stofnunum komu fram ýmis atriði sem vert er að benda á til frekari skoðunar í samhengi við mat á því sem barni er fyrir bestu. 

▼Lesa meira um áskoranir innan stjórnsýslu

Þar kom fram að starfsfólk sem kemur að málefnum barna sem sækja um alþjóðlega vernd finnur fyrir mikilli óvissu um hvenær skuli deila upplýsingum um börn með öðrum stofnunum og hvenær þörf sé á að vernda persónuupplýsingar. Dæmi um slíkt úr samtölum við hagaðila er fyrirspurn frá barnaverndaryfirvöldum til Útlendingastofnunar þar sem falast var eftir upplýsingum um hversu lengi barn yrði á landinu. Við fyrstu sýn gæti það virst eðlileg upplýsingagjöf, en ef litið er til skyldu barnaverndaryfirvalda að veita barni þjónustu óháð lagalegri stöðu þess og í samræmi við það sem barninu er fyrir bestu er ljóst að upplýsingar af þessu tagi gætu verið til þess fallnar að valda mismunun. Gjarnan er talað um svokallaða eldveggi (bls. 13 og 58-62) sem þurfi að vera til staðar varðandi viðkvæmar persónulegar upplýsingar í umsóknarferli um alþjóðlega vernd. Nauðsynlegt er að skýra hvar eldveggirnir liggja um leið og samskipti milli stofnana eru auðvelduð.

Þessu tengt er hlutverkaskipting innan kerfisins. Í nær öllum samtölum við hagaðila kom fram að hlutverk þeirra sem koma að móttöku barna er ekki alltaf skýrt. Það kom fram í samtölum við bæði börn og starfsfólk að börn hafi óskað eftir aðstoð tveggja stofnana sem bentu hvor á aðra og mál barnanna leystust aldrei. Bent var á að það skorti mjög á yfirsýn yfir móttökuferlið og að enginn einn aðili væri ábyrgur fyrir því að samræma aðkomu ólíkra hagaðila að ferli barnsins í gegnum ólík kerfi. Í verkefninu HEIMA hefur verið leitast við að sjá móttökuferlið sem eina heild þar sem margir ólíkir aðilar koma að og þurfa að vinna saman.

Í litlu kerfi hafa einstaklingar oft mikil áhrif og þá sérstaklega ef skortur er á sameiginlegum viðmiðum og verkferlum. Í samtölum við hagaðila kom margsinnis fram að sjónarmið og skoðanir starfsfólks skipti miklu máli. Bæta þurfi verkferla en líka að bjóða upp á fræðslu og stuðning ásamt því að setja skýra stefnu um hvernig skuli taka á móti börnum sem sækja um alþjóðlega vernd. Því tengt er öflugt eftirlit sem einnig tengist yfirsýn á kerfið. Það er mikilvægt að eftirlit sé haft með ferlinu öllu og það tryggt að sérfræðingar á þessu sviði sinni því eftirliti.