Sjónarmið barna

Í verkefninu HEIMA er áhersla lögð á sjónarmið barna og sögðu börn frá upplifun sinni af því að koma til Íslands og sækja um alþjóðlega vernd. Þau voru 31 talsins á aldrinum 7 til 18 ára, ásamt ungu fólki á aldrinum 18 – 21 árs sem voru börn þegar þau komu fyrst til landsins. Börnin voru búsett í Reykjavík og Hafnarfirði. Við bættust niðurstöður níu viðtala við fylgdarlaus börn sem framkvæmd voru af öðrum aðilum. Þá var jafnframt var rætt við 12 foreldra um þeirra upplifun af því að fylgja börnum í gegnum umsóknarferlið.

Sjónarmiðum barnanna er skipt niður í fimm flokka og sjötti flokkurinn er tileinkaður foreldrum sérstaklega. 

▼Ég þarf að skilja / verða sjálfstæðari

Atriði sem börn benda á að valdi vanlíðan:

  • Þau finna fyrir óvissu og kvíða þegar þau skilja ekki og eru ekki upplýst um framvindu umsóknarinnar um vernd.
  • Það er skortur á upplýsingum um ferlið, hvað gerist á hverjum stað, hlutverk starfsfólks og þeirra eigið hlutverk.
  • Aðstaða og upplýsingar fyrir börn er af skornum skammti.
  • Það er erfitt að bíða lengi.
  • Þau kvíða ákvörðuninni um synjun eða vernd.
  • Þau upplifa reiði, hræðslu og stundum uppgjöf þegar þau fá synjun á umsókn sinni.

Atriði sem börn og aðrir viðmælendur benda á að myndu bæta líðan barna:

  • Jöfn og tíð upplýsingargjöf skiptir máli, líka þegar ekkert er að frétta.
  • Þjónustuaðilar skipta miklu máli í upplýsingagjöf.
  • Staðir með aðstöðu eða efni fyrir börn sitja í fersku minni og gera upplifunina jákvæðari.
  • Skólinn sinnir mikilvægu hlutverki í upplýsingagjöf bæði fyrir börn og foreldra.
  • Það er mikilvægt að börn séu upplýst en ekki gerð ábyrg fyrir miðlun upplýsinga til foreldra sinna.

▼Mér þarf að líða eins og ég eigi heimili

Atriði sem börn benda á að valdi vanlíðan:

  • Mörg barnanna töluðu um að hafa fundið fyrir svengd, þreytu og kulda fyrstu sólarhringana á Íslandi.
  • Óhrein herbergi og takmörkuð aðföng valda þeim vanlíðan.
  • Þau upplifa einmanaleika og hræðslu í Bæjarhrauni.
  • Skortur á leikplássi og leikföngum gerir biðina og óvissuna verri.
  • Þau upplifa sig föst ef þau búa afskekkt eða hafa takmarkaðan aðgang að samgöngum.

Atriði sem börn og aðrir viðmælendur benda á að myndu bæta líðan barna:

  • Hreint húsnæði þar sem er rúm fyrir alla skiptir börnin máli.
  • Aðgangur að mat strax við komuna til landsins er mikilvægur.
  • Leikföng og staðir til að leika sér innan- og utandyra minnkar álagið á börnin.
  • Börn sem eiga systkini á svipuðum aldri eru betur stödd því þau eiga vísan leikfélaga.

▼Ég þarf meiri virkni / finna fyrir minni einmanaleika

Atriði sem börn benda á að valdi vanlíðan:

  • Það er erfitt að skilja ekki neitt í skólanum og fá litla aðstoð frá fullorðnum.
  • Leiði yfir að fá ekki að stunda íþróttir eða aðrar tómstundir.
  • Þrá eftir að læra tungumálið.
  • Börn eldri en 16 ára hafa færri tækifæri til að læra íslensku og mennta sig.
  • Þeim þykir erfitt að eignast íslenska vini.

Atriði sem börn og aðrir viðmælendur benda á að myndu bæta líðan barna:

  • Að byrja í skóla sem fyrst er mjög mikilvægt börnunum og að þeim þyki skemmtilegt í skólanum.
  • Tómstundir og námsgreinar sem krefjast ekki íslensku eru afar mikilvægar börnunum og sárt ef þau eru svipt því.
  • Það er mikilvægt fyrir börnin að hafa eitthvað við að vera eftir skóla og um helgar.
  • Vinir af erlendum uppruna eru mikilvægir en aðstoð við að eignast íslenska vini skiptir þau líka miklu máli.
  • Fyrir eldri eru námskeið eins og Dale Carnegie og kort í World Class dæmi um mikilvæg námstækifæri og dægrastyttingu.

▼Ég þarf að hitta lækni

Atriði sem börn benda á að valdi vanlíðan:

  • Þau upplifa ótta, kvíða og jafnvel sársauka ef aðgengi að heilbrigðisþjónustu er ekki til staðar.
  • Það veldur óöryggi ef fyrsta tækifæri fyrir þjónustu er sóttvarnarskoðun því stundum er þörf á heilsugæslu fyrr.
  • Óþarflega löng bið eftir heilbrigðisþjónustu getur valdið áhyggjum og jafnvel skaða, t.d þegar þarf að bíða eftir að þjónustuaðili vísi áfram til heilbrigðisþjónustu. Vandi barns eða foreldris er stundum orðinn mikill þegar loksins er gripið inn í.
  • Óvissa um rétt barna til heilbrigðisþjónustu.
  • Óeðlilega mikil ábyrgð lögð á börn sem eiga veika foreldra.

Atriði sem börn og aðrir viðmælendur benda á að myndu bæta líðan barna:

  • Þar sem aðgengi að félagsráðgjöfum er gott, til dæmis með Facebook síðu og bakvaktarsíma, gengur betur að veita heilbrigðisþjónustu.
  • Ef veittar eru upplýsingar um vakt heilsugæslunnar eftir kl. 16 léttir það á áhyggjum foreldra gagnvart börnum sínum.
  • Beint aðgengi að heilsugæslustöðvum og upplýsingar um hvernig skuli sækja þjónustu þeirra myndi tryggja betur öryggi barna og auðvelda vinnu þjónustuaðila.
  • Aukin þjónusta inn á heimili veikra foreldra skiptir börnin máli.
  • Sálfræðiþjónusta hjálpar börnum mikið, sérstaklega ef þau eiga engan annan til að ræða við.

▼Ég þarf umönnun þegar ég er ein eða einn á ferð

Atriði sem börn benda á að valdi vanlíðan:

  • Þau finna fyrir ótta, óöryggi og vonleysi þegar það skortir alla umönnun.
  • Þrá eftir mikilvægum fullorðnum sem aðstoða með daglegar athafnir og aðstoða við umsóknina í samvinnu við barnið.
  • Skortur á upplýsingum um umsóknarferlið og stöðuna hverju sinni.
  • Söknuður eftir góðum mat og áhyggjur af næringu.
  • Skortur á menntun og tungumálakennslu veldur áhyggjum af því að missa af tækifærum til náms og takmarkaðs sjálfstæðis.
  • Skortur á einhverju við að vera.
  • Áhyggjur af fjölskyldu og skortur á aðstoð við fjölskyldusameiningu.
  • Miklar áhyggjur af framtíðinni.
  • Neikvæðar og erfiðar breytingar við 18 ára aldur.

Atriði sem börn og aðrir viðmælendur bentu á að myndu bæta líðan barna:

  • Gott samstarf félagsráðgjafa og barns eykur sjálfstraust og fjölgar tækifærum til náms, tómstunda, fósturs og annarra úrræða.
  • Það eykur tilfinningu um sjálfstæði og sjálfsvirðingu þegar barnið fær tilfinningu um að vera virkur hluti af vinnu talsmannsins.
  • Fósturfjölskyldur auka mjög á tækifæri barnanna til að skilja umsóknarferlið og íslenskt samfélag. Þær létta álagið af biðinni og aðstoða við að undirbúa framtíðina.
  • Heitur og góður matur er mikilvægur börnunum og minnkar einmanaleika.

▼Ég þarf að geta hlíft barninu mínu

Atriði sem foreldrar benda á að valdi vanlíðan:

  • Miklar áhyggjur af líðan barnanna og eiga í erfiðleikum með að vernda börnin.
  • Vanlíðan vegna aðgerðarleysis (engin vinna, tómstundir eða vinir).
  • Skortur á samráði.
  • Áhyggjur af framtíð barnanna.
  • Ótti, vonleysi og hjálparleysi gagnvart umsóknarferlinu.
  • Skortur á upplýsingum um réttindi og skyldur.

Atriði sem foreldrar og aðrir viðmælendur benda á að myndu bæta líðan barna:

  • Gott aðgengi að þjónustu og upplýsingum hjálpar foreldrum að sinna sínu hlutverki.
  • Virkni foreldra hjálpar til að takast á við biðina og óvissuna.
  • Glaðir foreldrar eru góðir foreldrar.