Tillögur og lausnir frá vinnustofum HEIMA

Í tveimur heilsdags vinnustofum unnu yfir þrjátíu sérfræðingar í móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd að hugmyndum um hvernig bæta mætti móttökuna. Tillögur þeirra byggja á sjónarmiðum barnanna og upplifun þeirra af móttökunni á Íslandi. Hugmyndirnar eru því alfarið komnar frá sérfræðingum á þessu sviði, en UNICEF á Íslandi styður hugmyndirnar heilshugar og teljum við að þær komi til móts við brýnasta vanda barna sem sækja um vernd hér á landi.

Í kjölfar vinnustofanna fengu börnin tækifæri til að segja sína skoðun á hugmyndum sérfræðinganna og voru gerðar breytingar á forgangsröðun hugmyndanna og áherslum í samræmi við athugasemdir barnanna.

Tillögunum er raðað eftir mikilvægi þar sem bæði sérfræðingar úr vinnustofum auk barna fengu tækifæri til að veita þeim hugmyndum atkvæði sem þeim þótti mikilvægastar.

mottaka2Asset 12.png

▼Lesa meira um Móttökuheimili fyrir fylgdarlaus börn

Lýsing:

Móttökuheimilið er sérstakt úrræði fyrir fylgdarlaus börn og ungmenni. Það er rekið af barnaverndaryfirvöldum og hefur það að markmiði að tryggja hagsmuni barna, öryggi þeirra, velferð, vellíðan og þroska. Mikilvægt er að strax sé hafinn undirbúningur fyrir næstu skref í lífi barnsins, hver sem þau verða. Á móttökuheimilinu er alltaf einhver fullorðinn á staðnum og reglur gilda eins og á venjulegu heimili. Þar fer fram þjálfun í heimilisverkum og lífsleikni. Eldaður er heitur matur á kvöldin og fastir viðburðir eru á dagskrá í hverri viku. Allir fá rödd en þurfa að fylgja reglum. Á efri hæð hússins fer viðtal Barnahúss fram og húsið er í göngufæri við skóla, sund, bókasafn og leikfimisal.

Heimili með slíkri umönnun eflir sjálfstraust barnanna og tryggir aðlögun að samfélaginu. Öruggt og glatt barn leiðir til glaðara samfélags. Hugmyndin er að færa þjónustu til barnanna. Í húsinu fara fram viðtöl og fræðsla en allt annað er sótt út í samfélagið. Húsnæðið er aldurs- og kynjaskipt eftir þörfum og börnin fá einstaklingsherbergi.

Fylgdarlaus börn fara á móttökuheimili strax við komu (4 - 6 einstaklingar), þar sem aðgengi er að fullorðnum allan sólarhringinn og nauðsynleg þjónusta tryggð með aðgengi að sérfræðingum. Börn fara sem fyrst til fósturfjölskyldu og fósturfjölskyldurnar fá handleiðslu. Börnunum er tryggð menntun eða vinna, auk tómstunda við hæfi.

Tillaga að breytingum:

  • Tryggja mat og hvíld við komu.
  • Fyrsta skýrslutaka sé eingöngu til að bera kennsl á viðkomandi og meta hvort hann eða hún eigi heima á móttökuheimili.
  • Tryggja sambærilega þjónustu fyrir 15 - 16 ára, 16 - 18 ára, og 18 - 21 árs en aðskilja búseturýmin.
  • Tryggja að sambærileg þjónusta sé í boði fyrir öll kyn.
  • Tryggja fóstur fyrir börn samkvæmt lögum.
  • Setja fylgdarlaus börn undir hatt einnar barnaverndarnefndar til að tryggja jafnræði í þjónustu.
  • Setja viðmið um lágmarksþjónustu barnaverndar við fylgdarlaus börn.
  • Setja verklagsreglur og tryggja virkt, upplýst eftirlit æðra stjórnvalds.
  • Allir hagaðilar vinna saman undir hatti móttökumiðstöðvar.

Hagaðilar eru dómsmálaráðuneyti, félags- og barnamálaráðuneyti, sveitarfélög, heilsugæslan, barnaverndaryfirvöld, fræðsluyfirvöld, lögreglan, talsmenn vegna umsókna barna og Útlendingastofnun.

Samlegðaráhrifin yrðu aukin skilvirkni fyrir Útlendingastofnun og barnavernd sem myndi skila sér í hraðari málsmeðferð og spara fjármagn til lengri tíma litið. Þetta myndi létta á þjónustukerfi, t.d. lögreglunni, fræðsluyfirvöldum, íþrótta- og tómstundastarfi, grunn- og framhaldsskólum o.s.frv.

Það sem hægt er að gera strax!

Á meðan beðið er eftir að breytingar gangi í gegn er hægt að bregðast strax við brýnustu áskorunum.

  1. Tryggja mat og hvíld við komu: Næringaríkur matur sé til staðar strax við komuna í móttökumiðstöðina í Bæjarhrauni. Að ekki sé tekin skýrsla af börnum um nætur. Hvíld, næring og heilsa sé tryggð áður en lögregla tekur skýrslu af barni.
  2. Umönnun í Bæjarhrauni: Ráða starfsmann til að hafa umsjón með fylgdarlausum börnum á Bæjarhrauni sem hefur umsjón með daglegum athöfnum barna, aðstoðar við eldamennsku og dagleg samskipti.
  3. Þjónusta við 18 til 21 árs: Tryggja ungmennum frá 18 - 21 árs áframhaldandi sambærilegri þjónustu og fylgdarlausum börnum.
  4. Næring: Gefa eina heita máltíð á dag sem börnin elda í samstarfi við starfsmann.
  5. Fósturfjölskyldur: Skylda barnaverndaryfirvöld til að sækja alltaf um fóstur.
  6. Nám og tómstundir: Koma öllum börnum í tómstundir og nám eða starfsnám.
  7. Eftirlit: Koma á virku eftirliti Barnarverndarstofu með aukinni þekkingu og ráðningu sérfræðings í málefnum barna á flótta.
gegneinmanna3Asset 20.png

▼Lesa meira um Gegn einmanaleika

Lýsing:

Gegn einmanaleika leggur áherslu á tómstundir og afþreyingu til að koma til móts við einmanaleika eftir skóla og kvíða fyrir skólafríum. Einnig að tómstundastarf sé í boði áður en skólaganga hefst. Verkefnið tryggir að öll börn hafi eitthvað við að vera sem hæfir þeirra áhugasviði og er einstaklingsbundin nálgun til þess að tengjast samfélaginu. Lögð er áhersla á áhugamál og tómstundir og að skapa sérsniðnar lausnir, til dæmis með aukinni nánd við dýr. Markmiðið er að tryggja jöfn tækifæri óháð búsetu og það er mikilvægt að þjónustuteymi sveitarfélaganna miðli af reynslu sinni.

Með verkefninu má koma í veg fyrir andleg vandamál og fordóma auk þess að búa til persónuleg tengsl í gegnum áhugamál. Til þess að fjölga valmöguleikum á tómstundum og kynna börn fyrir nýjum valkostum mætti leggja fyrir þau áhugasviðspróf eða leyfa þeim að prófa tvær til þrjár tómstundir.

Tillaga að breytingum:

  • Skýra rétt barnanna til tómstunda í lögum og reglugerð og tryggja jöfn tækifæri óháð búsetu.
  • Veita börnum tækifæri til tómstunda áður en skólaganga hefst.
  • Skýra skyldur sveitarfélaga við að veita menningar- og tómstundastarf í samningum Útlendingarstofnunar við sveitarfélögin.
  • Leggja fyrir áhugasviðspróf til að kanna hvaða tómstundir gætu hentað.
  • Leyfa börnunum að prófa ólíka tómstundir.
  • Lengd dvalar á ekki að skipta máli. Allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Hagaðilar eru sveitarfélög, íþróttafélög og listaskólar.

Samlegðaráhrif væru við íþróttafélög, tónlistaskóla og samfélagið í heild þar sem óvæntir hæfileikar og fjölbreytileiki geta styrkt starfið. Bætt andleg heilsa barnanna og fleiri tækifæri til að kynnast íslenskri menningu og hefja aðlögun.

Það sem er hægt að gera strax!

  1. Koma á samráðsvettvangi þjónustuteyma sveitarfélaganna.
  2. Skýra rétt barna til tómstunda í reglugerð og í samningum Útlendingastofnunar við sveitarfélög.
  3. Koma á námskeiðum fyrir börn í skólafríum. Skólafrí geta verið kvíðvænleg fyrir þennan hóp barna. Þau hafa ekki tækifæri til að ferðast, heimsækja ættingja eða stunda áhugamál. Sum þeirra búa jafnframt í þröngu húsnæði við þröngan kost. Hjá sveitarfélögum og félagasamtökum á borð við Skátana eru tækifæri til að auka samvinnu og auka framboð fyrir þennan hóp barna.
  4. Bjóða börnum upp á tómstundastarf frá fyrsta degi óháð þjónustuaðila.
heilsugæsla2Asset 16.png

▼Lesa meira um Heilsugæslu fyrir alla

Lýsing:

Heilsugæslan opni almenna þjónustu sína fyrir umsækjendur og þjónusta sé samþætt svo fólk fái upplýsingar strax um hvert skuli leita. Nú er öll heilsugæsla á hendi göngudeildar sóttvarna, sem hefur þau áhrif að sóttvarnarskoðun, sem m.a. er forsenda skólavistar barna, frestast oft fram úr hófi. Á heilsugæslunni eru möguleikar á að þróa fræðslu til foreldra um næringu, heimilisofbeldi o.s.frv. og möguleiki á að bjóða sálfræðiaðstoð.

Hagaðilar væru heilbrigðisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, félag- og barnamálaráðuneyti og Útlendingastofnun. Ásamt Heilsugæslunni, Rauða krossinum, umsækjendum um alþjóðlega vernd og þjónustuteymi Hafnarfjarðar, Reykjanesbæjar og Reykjavíkur.

Samlegðaráhrif yrðu að allt starfsfólk heilsugæslunnar lærir að nýta sér túlkaþjónustu á borð við Language Line. Jákvætt viðhorf gagnvart fjölbreyttum hópum eykst. Það dregur úr líkum á alvarlegri vanda og minnkar álag á aðra starfsmenn þjónustunnar. Þá væri hægt að stuðla að jákvæðari umfjöllun í fjölmiðlum.

Tillaga að breytingum:

  • Heilbrigðisyfirvöld tryggi öllum börnum jafnan aðgang að heilsugæslu.
  • Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins standi við samning við Útlendingastofnun sem kveður á um almennan aðgang að heilsugæslustöðvum.

Það sem hægt er að gera strax!

  1. Gefa út upplýsingaefni og koma á eftirfylgni hjá Útlendingastofnun fyrstu vikurnar til að tryggja að börn og foreldrar fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu Við upphaf ferlisins getur lögregla og Útlendingastofnun gefið skýrari upplýsingar um rétt umsækjenda til heilbrigðisþjónustu og hvert skuli leita. Þá væri hægt að spyrja í viðtölum hvort fólk njóti heilbrigðisþjónustu. Það sama mætti gera þegar umsækjendur flytjast yfir í þjónustu sveitarfélaganna.
  2. Fræða starfsfólk heilbrigðisstofnana, sérstaklega starfsfólk í móttöku, um réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd og halda námskeið um notkun túlkaþjónustu á borð við Language Line.
  3. Tryggja þarf að allt starfsfólk heilbrigðisstofnana þekki rétt umsækjenda um alþjóðlega vernd og þekki verklag sinnar stofnunnar. Setja má saman upplýsingapakka eða námskeið fyrir framlínustarfsmenn ásamt því að kenna öllu starfsfólki á túlkaþjónustu.
  4. Taka burtu hindranir vegna kennitöluleysis. Gjarnan er bent á að skortur á kennitölu sé það sem hindri fólk í því að fá þjónustu. Ef útlendinganúmer yrðu samræmd í eitt númer, væri með auðveldum hætti hægt að nota þau númer til að rekja komur umsækjenda í heilbrigðisþjónustunni. Einnig væri hægt að gefa út tímabundnar kennitölur í stað útlendinganúmera til að tryggja aðgang.
upplyysingasetur2Asset 17.png

▼Lesa meira um Upplýsingasetrið

Lýsing:

Upplýsingasetrið er bæði miðstöð upplýsinga og félagsmiðstöð (e. migration center). Þar er rafræn upplýsingaþjónusta, upplýsingafulltrúar, íslenskunámskeið fyrir foreldra, leiksvæði og dagvistun fyrir börn á sama stað. Markmiðið er að auka upplýsingaflæði, draga úr félagslegri einangrun og óvissu, bæta andlega líðan, einfalda kerfið og auðvelda biðina fyrir ung börn. Upplýsingasetur er mikilvægt til að koma til móts við upplifun barna og foreldra þeirra á mikilli óvissu og vanþekkingu á íslensku samfélagi sem leiðir til kvíða og hjálparleysis.

Setrið mætir mikilvægri þörf fyrir upplýsingar um samfélagið og réttindi og skyldur umsækjenda. Það eykur virkni og léttir á öðrum aðilum í kerfinu, er atvinnuskapandi og dregur úr fordómum. Setrið hefur jákvæð áhrif á aðlögun umsækjenda sem í kjölfarið er jákvætt fyrir samfélagið allt.

Hagaðilar eru umsækjendur, ráðuneyti, sveitarfélög, Útlendingstofnun, Rauði krossinn, ásamt sjálfboðaliðum.

Samlegðaráhrifum væri hægt að ná fram með því að nýta húsnæðið í aðra starfsemi og tengja við aðra starfsemi. Hægt væri að setja upp slíka miðstöð til prufu til dæmis í Hafnarfirði, sem stefnir að því að verða barnvænt sveitarfélag.

Það sem er hægt að gera strax!

  1. Barnvænar upplýsingar: Búa til barnvænar upplýsingar um réttindi barna á Íslandi og umsóknarferlið.
  2. Fræðsla fagaðila: Efla þekkingu allra þeirra sem þjónusta umsækjendur um réttindi og skyldur umsækjenda um alþjóðlega vernd.
  3. Nýta bókasöfn: Búa til upplýsingapunkt á bókasöfnum sveitarfélaganna þar sem börn og foreldrar geta sótt á eigin forsendum upplýsingar um samfélagið, tómstundir, samgöngur, réttindi og skyldur.
listskopun2Asset 13.png

▼Lesa meira um Listsköpun barna

Lýsing:

Markmið verkefnisins er að börn sem sækja um alþjóðlega vernd kynnist og deili upplýsingum til að rjúfa einangrun þeirra og vinna gegn óöryggi og kvíða. Stofnuð yrði hljómsveit barna og haldnar listasýningar barna. Mikilvægt væri að bjóða íslenskum börnum til þátttöku. Virkjaðir yrðu myndlistaskólar og aðrir listaskólar. Finna þyrfti húsnæði, starfsmenn og virkja þekkta listamenn. Prufukeyrsla færi af stað eftir að skóla lýkur að vori, t.d. 5 dagar frá kl. 13 - 16.

Þetta hefði jákvæð áhrif á líðan barnanna og foreldra þeirra og myndi opna á milli menningarheima. Markmiðið væri að slíkt nám væri opið börnum frá komu þeirra til landsins og myndi tryggja virkni þeirra frá fyrstu viku. Listsköpun krefst ekki tungumáls og stuðlar að betri andlegri líðan og félagslegum tengslum. Þátttaka í slíku verkefni eykur líkur á jákvæðara viðhorfi og styttir biðina, auk þess að hjálpa til við aðlögun. Hægt væri til dæmis að tengja verkefnið vinaverkefnum í skólanum. Þá væri hægt að tengja verkefnið frístund og félagsmiðstöðvum. Verkefnið skapar góðar minningar en gæti líka valdið vonbrigðum þegar tímabilinu lýkur og tengsl rofna aftur.

Það sem er hægt að gera strax!

  1. Sumarnámskeið: Tryggja börnum aðgengi að sumarnámskeiðum í samstarfi við sveitarfélögin og þróa sérsniðin sumarnámskeið fyrir þennan hóp í júlí, þegar önnur námskeið eru ekki í gangi.
  2. Samstarf: Leita eftir samstarfi við listaskóla og listgreinakennara við þróun á verkefni.
utivistogvinattaAsset 19.png

▼Lesa meira um Útivist og vináttu

Lýsing:

Útivist og vinátta er félagsstarf sem byggir brýr og auðveldar vináttu og samskipti milli barna og ungmenna. Það er hægt að skipuleggja starfið innandyra og utan, t.d. með göngum og útilegum þar sem börnin styðja hvort og vinna saman að því að rækta vináttu og skilning sem þau rækta áfram í gegnum leik og starf.

Styrkleikar hugmyndarinnar eru að í henni felst óformlegt nám, tungumálanám, frelsi, tenging við náttúruna og þekking á henni, samvera og tengsl. Með hugmyndinni má minnka einangrun og auka virkni auk þess að kynna börn fyrir nýrri menningu og nýjum stöðum. Hægt væri að koma á samstarfi við til dæmis skátahreyfinguna og/eða Hitt húsið. Hugmyndin væri að prófa verkefnið á einum stað einu sinni í mánuði og hlusta eftir skoðunum og upplifun barnanna eftir ferðirnar. Minni útgáfa af verkefninu væri að fara á staði sem leyfa hreyfingu og virkni, t.d. Trampólíngarðinn.

Hagaðilar eru sveitarfélög, Skátarnir, hjálparsveitir, ferðaþjónustufyrirtæki.

Samlegðaráhrif gætu verið aukin færni skátahreyfingarinnar eða annarra í umönnun barna með fjölbreyttan bakgrunn.

hondihond2Asset 14.png

▼Lesa meira um Hönd í hönd - stuðningsfjölskyldur fyrir umsækjendur um vernd

Lýsing:

Hönd í hönd er sjálfboðaliðakerfi þar sem þeir umsækjendur sem kjósa geta eignast vin eða stuðningsfjölskyldu sem aðstoðar við daglegt líf eða veitir félagsskap. Stuðningurinn gæti jafnframt falið í sér ráðgjöf um íslenskt samfélag. Þetta er mikilvægt verkefni því það dregur úr einangrun og jaðarsetningu, eykur samfélagslega aðlögun og upplifun og sjálfstraust.

Umsóknarferli gæti verið stafrænt ásamt fræðslu um verkefnið. Hins vegar þyrftu samskiptin líka að vera mannleg og stuðla að gagnkvæmri vináttu. Það gæti reynst erfitt að fá sjálfboðaliða í byrjun og þá væri gott að leita til þeirra sem hafa einhvern tímann verið í sömu sporum t.d. Íslendinga sem hafa búið erlendis eða útlendinga sem flust hafa til Íslands.

Til að hugmyndin sé skilvirk þarf einn aðila sem heldur utan um verkið. Samstarf væri mögulegt t.d. við Háskóla Íslands. Kostnaður væri lítill miðað við ávinning. Sjálfboðaliðar og fjölskyldur í leit að vernd færu á námskeið og fengju kynningarmyndband sem væru sniðin að fullorðnum jafnt sem börnum. Þá þyrfti starfsmann til að halda utan um sjálfboðaliða og hlúa að þeim.

Hugmyndin er nokkuð skýr þar sem stuðningsfjölskylduhlutverk er þekkt í samfélaginu og hún er því vel framkvæmanleg. Hindranir gætu verið að meta stuðningsfjölskyldur og finna fólk sem passar saman. Mikilvægt að sinna eftirfylgni þannig að verkefnið sér virkt úrræði.

▼Lesa meira um Skýrar og aðgengilegar upplýsingar um heilbrigðisþjónustu

Lýsing:

Mikilvægt er að fjölskyldur og börn fái skýrar og aðgengilegar upplýsingar um heilbrigðisþjónustu sem þeim býðst. Hugmyndin er að í móttökuviðtali hjá Útlendingastofnun séu börn og foreldrar sérstaklega upplýst um aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Veittar eru skýrar og réttar upplýsingar í upphafi ferlisins sem eru aðgengilegar á skriflegan og myndrænan hátt. Jafnframt er reglulegt innlit og eftirfylgni tryggð þar sem gengið er úr skugga um að fólk fái þá þjónustu sem það vantar. Þegar börn flytjast yfir til sveitarfélaganna eru samskipti milli Útlendingastofnunar og viðkomandi hælisteymis tryggð og starfsfólk Útlendingastofnunar útbýr upplýsingar um stöðu barnsins við þjónustulok.

Tillaga að breytingum:

  • Réttar upplýsingar um heilbrigðisþjónustu tryggðar hjá Útlendingastofnun.
  • Búa til myndrænt efni um heilbrigðisþjónustu á Íslandi
  • Aukið samstarf Útlendingastofnunar við þjónustuteymi sveitarfélaganna.
  • Þróa og dreifa fræðsluefni til starfsfólks.

Hagaðilar eru Útlendingastofnun (framkvæmdaraðili), Dómsmálaráðuneytið (fjármagn), þjónustuteymi sveitarfélaga (samstarf), Rauði krossinn, Landlæknir og Heilbrigðisráðuneyti.

Samlegðaráhrif eru fólgin í efni sem gæti nýst fyrir aðra innflytjendur. Meiri upplýsingar í upphafi minnkar álag á alla hagaðila og undirbýr betur árangursríka aðlögun. Fá fagfólk (auglýsingastofu, listaháskólann, háskóla) til að gera gæðaefni.