Um verkefnið

Undanfarin ár hefur fjöldi barna sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi aukist verulega. Aðstæður barnanna hér á landi hafa mætt gagnrýni frá frjálsum félagasamtökum og almenningi og árið 2018 gaf rannsóknarstofnun UNICEF út skýrslu um stöðu þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Norðurlöndum. Skýrslan leiddi í ljós brotalamir í móttöku barna í öllum ríkjunum. 

Í framhaldinu var ákvað UNICEF á Íslandi að beina sjónum að 3. grein Barnasáttmálans sem fjallar um það sem barni er fyrir bestu. Verkefnið HEIMA skoðar móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi frá sjónarhóli barnanna sjálfra og varpar þannig ljósi á þau atriði sem stjórnvöld þurfa að huga betur að til að uppfylla 3. greinina. Meginmarkmið verkefnisins er þannig að koma auga á helstu áskoranirnar við móttöku barnanna og finna raunhæfar lausnir á því hvernig stjórnvöld geta betur framfylgt skuldbindingum Íslands gagnvart börnum.

▼Lesa meira um réttindi barna á flótta

Verkefnið HEIMA byggir í grunninn á þriðju grein Barnasáttmálans, sem krefur stjórnvöld um að leggja mat á það sem barni er fyrir bestu í ákvörðunum sínum. Þetta er ein af grundvallargreinum sáttmálans, ásamt rétti barns til lífs og þroska, tjáningar og jafnræðis. Þriðja greinin kveður á um að „það sem barni [sé] fyrir bestu [skuli] ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn“. Það sem barni er fyrir bestu er þannig einn af grunnþáttum móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd og er í senn réttur, meginregla og málsmeðferðarregla.

En mannréttindi eru meira en orð á blaði. Til þess að börn njóti í raun mannréttinda sinna þurfa athafnir fullorðinna að endurspegla réttindi þeirra, svo sem í ákvörðunum sem teknar eru, verklagi, viðmóti og viðhorfum. Þetta þýðir að allir sem taka ákvarðanir sem varða börn þurfa að meta hvað sé þeim fyrir bestu og setja hagsmuni þeirra í forgang. Stjórnvöld eru hvött til þess að gera slíkt mat skipulega og sjá til þess að sérfræðingar í málefnum barna komi að matinu. Þar skal m.a. líta til velferðar, þroska, auðkennis, öryggis, jafnræðis, menntunar, heilbrigðisþjónustu, viðkvæmrar stöðu, umönnunar, skoðana barns, fjölskyldu og fjölskyldusameiningar.

Mat á því sem barni eru fyrir bestu ætti að framkvæma á öllum stigum móttökuferlisins. Annars vegar til að meta hvaða þjónustu barn hefur þörf fyrir. Hins hvernig grundvallarréttindi þess eru best tryggð þegar tekin er ákvörðun um synjun eða veitingu verndar. Það er mikilvægt að skilja hvernig þessir tveir þættir matsins vinna saman. Í raun má segja að annað geti ekki virkað án hins, þ.e. ekki er hægt að leggja mat á hvort það sé barni fyrir bestu að dvelja í viðkomandi ríki nema að undangengnu mati, af þar tilbærum aðilum, á hagsmunum barnsins. Þá er jafnframt ómögulegt að taka ákvarðanir varðandi barn, sem byggja á mati á því sem barninu er fyrir bestu, án þess að slíkt mat sé hluti af ákvörðun um synjun eða veitingu verndar.

Þegar við fengum aftur synjun leið mér eins og ég væri týnd. Ég var reið, hrædd og ringluð