Vinnuferli og framkvæmd

vinnuferli23-01.png

▼Vinnuferli

Vinnuferli verkefnisins skiptist í fimm megin verkþætti:

  1. Fyrsti þáttur verkefnisins er kortlagning á móttökuferlinu. Áhersla er á að tala við börn sem sækja um alþjóðlega vernd,en einnig foreldra og helstu hagaðila. Þannig er dregin upp raunsæ mynd af upplifun og reynslu þeirra sem nota og starfa við móttökuferlið.

  2. Eftir að viðhorfum hefur verið safnað er reynt að koma auga á þann vanda sem flest börn eiga sammerkt að hafa upplifað. Þar eru jafnframt komnar vísbendingar um þau atriði sem sérstaklega þarf að líta til við mat á því sem barni er fyrir bestu.

  3. Þegar vandinn hefur verið skilgreindur er hann borinn undir aðra hluthafa sem tengjast móttöku barna og þeir beðnir um að finna lausnir. Með þessu er reynt að horfa framhjá kerfislægum eiginleikum móttökunnar og einblína á þau málefni sem börnin sjálf telja brýnast að bregðast við. Þannig er komið í veg fyrir að fulltrúar stofnana skilgreini vandann út frá eigin sjónarhóli, sem gæti skilað sér í viðhorfum sem speglast í vandamálum stofnunarinnar sjálfrar en ekki vandamálum sem börnin sjálf leggja áherslu á. Lausnirnar eru að lokum bornar undir börnin og þau fengin til að leggja mat á þær.

  4. Næsta skref væri að prófa lausnirnar á litlum skala, sjá hvort þær reynist vel eða illa og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að bæta þær. Þannig eru prófanir hluti af því að sannreyna bæði vandann og lausnirnar og taka upplýstar ákvarðanir um breytingar á kerfinu sem bæta stöðu sem flestra innan þess.

  5. Ef prófanir sýna jákvæðar niðurstöðu er hægt að leggja til áætlun um varanlegar breytingar á mótttökuferlinu.

▼Framkvæmd

HLUSTAÐ Á BÖRNIN

Í upphafi árs 2019 hittu fulltrúar UNICEF og Grallaragerðarinnar 31 barn og ungmenni og ræddu við þau um reynslu þeirra af því að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Notast var við aðferðina kortlagningu ferðalags (e. journey mapping), þar sem ferðalag þeirra frá komu til landsins til þess dags var sett fram á myndrænan hátt með hjálp tilfinningatákna. Börnin voru á aldrinum 7 – 18 ára en að auki voru nokkur ungmenni eldri en 18 ára sem höfðu komið til landsins sem börn. Börnin voru öll búsett í Reykjavík og Hafnarfirði en ekki gafst tími til að ræða við börn sem búsett eru í Reykjanesbæ, en þessi þrjú sveitarfélög þjónusta umsækjendur á Íslandi. Við bættust niðurstöður úr fókushópi fylgdarlausra barna sem Rauði Krossinn hélt á sama tímabili auk viðtala við sex fylgdarlaus börn fyrir MA-rannsókn Evu Bjargar Bragadóttur við Háskóla Íslands. Það reyndist vel að bera saman niðurstöður frá öðrum aðilum og gaf tækifæri til þess að sannreyna aðferðina. Niðurstöður viðtalana voru nokkuð keimlíkar og því hægt að draga þá ályktun að aðferðafræði verkefnisins sé réttmæt. Auk þess voru tekin viðtöl við hagaðila sem lýstu ferlinu og sinni aðkomu að móttökuferlinu. Það gaf einnig mikilvægar upplýsingar sem hægt var að bera saman við upplifun barnanna.

LEIÐIN KORTLÖGÐ

Samhliða þeirri vinnu var unnið að kortlagningu á leið barna í gegnum móttökuferlið, allt frá flugstöðinni eða öðrum komustað, til dvalarleyfis eða brottvísunar. Mest áhersla var lögð á fyrstu stig ferlisins þar sem bent hefur verið á mikilvægi þess hluta og hvernig upphafið getur haft áhrif á allt sem á eftir kemur. Með kortlagningu má öðlast betri skilning á öllum þeim aðilum sem koma að móttöku, svo tryggt sé að þeir séu allir þátttakendur í hugmyndavinnu verkefnisins og meðvitaðir um þá vinnu sem fer fram. Þessar upplýsingar voru settar upp á myndrænan hátt og geta nýst við miðlun upplýsinga milli stofnana og fyrir börn sem stödd eru í móttökuferli.

VINNUSTOFUR MEÐ SÉRFRÆÐINGUM

Þegar niðurstöður samtalanna við börnin lágu fyrir voru stofnanir, félagasamtök og aðrir sem tengjast móttöku barna beðin um að leysa þær áskoranir sem börnin höfðu lýst. Unnið var að lausnunum í tveimur vinnustofum sem haldnar voru 26. mars og 10. apríl 2019 í húsnæði Listaháskóla Íslands. Alls tóku þátt 36 sérfræðingar frá 16 stofnunum eða samtökum. Helstu áherslur vinnustofanna voru að kynna sjónarmið barna sem koma til Íslands, skapa samkennd, opna tækifæri til samtals og að síðustu þróa lausnir til að bregðast við aðstæðunum eins og þeim er lýst.

ENDURGJÖF FRÁ BÖRNUM

Eftir vinnustofurnar voru hugmyndirnar teknar saman og þær kynntar fyrir börnunum. Hist var í anddyri Bíó Paradísar þar sem módel og lýsingar á lausnunum voru til sýnis. Í hópum var lausnunum lýst á móðurmáli barnanna og þau fengin til að benda á það sem betur mætti fara auk þess að velja þá lausn sem þeim þótti best.

▼Aðferðafræði

HEIMA fylgir hugmyndafræði um mannmiðaða hönnun, þar sem áhersla er lögð á að notendur þjónustu taki þátt í að bæta hana. Þannig er tryggt að umbætur nýtist sem best. Í ljósi þess að verkefnið snýr að börnum sem staldra gjarnan stutt við á landinu er mikilvægt að finna leiðir til þess að bregðast hratt við vanda innan móttökunnar. Fáar íslenskar rannsóknir eru til á þessu sviði og eðli rannsókna þannig að niðurstöður liggja fyrir löngu eftir að barn þarf á aðstoð að halda. Mannmiðuð hönnun nýtist vel til þess að bregðast við stöðunni hratt og með samstarf að leiðarljósi. Til þess að fá sem heildstæðasta mynd er jafnframt mikilvægt að tala við þá sem standa barni næst (umönnunaraðila) og þá einstaklinga sem hafa farið í gegnum þetta ferli og eru nú fullorðnir. Áhersla er lögð á upplifun af móttökunni og að bregðast við þeim vanda sem flest börn benda á.

Verkefnið Heima var unnið útfrá sambærilegu sænsku verkefni að nafni ’Heilnæm mótttaka’ sem unnið var af Fornyelse Labbet, SVID (Hönnunarmiðstöð Svíþjóðar) og UNHCR árið 2018.